Fótbolti

Heimir með Suá­rez í sigtinu

Sindri Sverrisson skrifar
Heimir Hallgrímsson.
Heimir Hallgrímsson. Vísir/Getty

Það er ekki bara David Beckham sem hefur hug á að fá Luis Suárez frá Barcelona því úrúgvæski markahrókurinn er nú orðaður við Al Arabi, liðið sem Heimir Hallgrímsson þjálfar í Katar.

Það er Mitch Freeley, fréttamaður beIN Sports í Katar, sem greinir frá áhuga Al Arabi. Hann segir ljóst að það sé þó langur vegur á milli þess að sýna áhuga og þess að fá leikmanninn, en bendir á að annað félag í Katar, Al-Duhail, hafi haft efni á króatíska framherjanum Mario Mandzukic.

Komi Suárez til Al Arabi gæti hann orðið liðsfélagi Arons Einars Gunnarsson. Samningur Arons við félagið gildir til 30. júní á næsta ári.

Suárez á sömuleiðis eitt ár eftir af samningi sínum við Barcelona en spænskir miðlar hafa þó greint frá því að spili hann að lágmarki 60% leikja á næstu leiktíð framlengist samningurinn sjálfkrafa um eitt ár.

Spænska blaðið Mundo Deportivo hefur greint frá því að hið nýja bandaríska félag Inter Miami, sem er að hluta í eigu Beckham, hafi þegar gert Suárez tilboð. Barcelona muni vilja losna við Suárez til að hafa efni á því að fá Lautaro Martinez frá hinu ítalska Inter liði.

Suárez, sem er 33 ára, skoraði 16 mörk í spænsku 1. deildinni í vetur á sinni sjöttu leiktíð með Barcelona eftir komuna frá Liverpool. Hann hefur skorað fjögur mörk í sex leikjum í Meistaradeildinni þar sem Barcelona mætir Bayern München í sannkölluðum stórleik á föstudagskvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×