Innlent

Sautján innanlandssmit og þrjú virk smit á landamærum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sautján greindust með veiruna innanlands í gær.
Sautján greindust með veiruna innanlands í gær. Vísir/vilhelm

Sautján greindust með veiruna innanlands síðasta sólarhringinn, þrettán á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans og fjórir hjá Íslenskri erfðagreiningu. Þá greindust þrír með virk smit við landamærin og einn til viðbótar bíður eftir mótefnamælingu. 914 eru nú í sóttkví á landinu og fjölgar þar mjög milli daga. Þetta kemur fram í nýuppfærðum tölum á Covid.is.

Alls voru 1.924 sýni tekin við landamærin í gær og 759 sýni greind á sýkla- og veirufræðideild Landspítala. Þá voru 318 sýni tekin hjá Íslenskri erfðagreiningu. Alls eru 109 í einangrun með veiruna á landinu.

Enn eru virk smit í öllum landshlutum, langflest á höfuðborgarsvæðinu. Þar eru einnig langflestir, eða 665, í sóttkví. Þá tekur fjöldi þeirra sem eru í sóttkví á Suðurlandi stórt stökk frá því í gær en það skýrist líklega af nokkrum tugum Eyjamanna sem sendir voru í sóttkví eftir gestakomur í bænum um verslunarmannahelgina.

Nýgengi innanlandssmita, þ.e. fjöldi smitaðra á hverja 100 þúsund íbúa undanfarnar tvær vikur, er nú orðið 26,5. 

Gærdagurinn er sá stærsti með tilliti til nýsmitaðra í þessari seinni bylgju kórónuveirufaraldursins. Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn sagði í samtali við fréttastofu fyrir hádegi að uppi væru áhyggjur af því að ganga þyrfti lengra í aðgerðum gegn veirunni en nú er gert. 

Boðað hefur verið til upplýsingafundar vegna veirunnar klukkan 14, þar sem Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Víðir fara yfir stöðu faraldursins. Sýnt verður beint frá fundinum hér á Vísi, sjónvarpsstöðinni Stöð 2 Vísi og hann jafnframt sendur út á Bylgjunni.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×