Innlent

Tugir í sótt­kví í Vest­manna­eyjum eftir gesta­komur um verslunar­manna­helgina

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Búist er við að fleiri Eyjamenn fari í sóttkví eftir því sem líður á daginn.
Búist er við að fleiri Eyjamenn fari í sóttkví eftir því sem líður á daginn. Vísir/vilhelm

Einstaklingar sem heimsóttu Vestmannaeyjar um verslunarmannahelgina hafa greinst með Covid-19, sjúkdóminn sem kórónuveiran veldur. Fjörutíu og átta íbúar í Eyjum eru nú í sóttkví vegna smitanna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu í Vestmannaeyjum. 

Smitrakningarteymi almannavarna rekur nú ferðir hinna smituðu. Von er á að fleiri verði skikkaðir í sóttkví eftir því sem líður á daginn. Enginn er þó með staðfest smit í Vestmannaeyjum að svo stöddu. 

Aðgerðastjórn í Vestmannaeyjum hefur verið virkjuð vegna málsins. Stjórnin ítrekar mikilvægi þess að Eyjamenn gæti að smitvörnum og fari að fyrirmælum stjórnvalda til að hefta útbreiðslu veirunnar í samfélaginu.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn sagði í samtali við fréttastofu fyrir hádegi að gærdagurinn hefði verið sá stærsti með tilliti til nýsmitaðra í þeirri bylgju faraldursins sem nú gengur yfir. Grípa þurfti til einkar harðra aðgerða í Vestmannaeyjum vegna kórónuveirunnar í vor eftir að hópsýking kom upp í bænum. Á tímabili voru nokkrir tugir smitaðir og hundruð í sóttkví.

Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum var blásin af um miðjan júlí og var því lítið um að vera í Eyjum um verslunarmannahelgina. Í tilkynningu lögreglu frá því á mánudag kom þó fram að nokkur erill hafi verið í Eyjum um nóttina. Töluverð ölvun hafi verið í bæjum og mikið um gleðskap í heimahúsum og görðum sem lögregla hafi haft afskipti af.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×