Fótbolti

City í átta liða úrslit | Annað árið í röð sem Madrídingar detta út í fyrstu umferð

Anton Ingi Leifsson skrifar
Gabriel Jesus var aðalmaðurinn þegar City tryggði sér farseðil til Portúgal.
Gabriel Jesus var aðalmaðurinn þegar City tryggði sér farseðil til Portúgal. getty/Simon Stacpoole

Manchester City vann Real Madrid 4-2 samanlagt í einvígi liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

City vann fyrri leikinn 2-1 á Santiago Bernabéu fyrir 163 dögum síðan. Real þurfti því að skora að minnsta kosti tvö mörk til að eiga möguleika í kvöld.

Raheem Sterling kom heimamönnum í City yfir á 9. mínútu eftir skelfileg mistök Raphael Varane í vörn Madrídinga. Gabriel Jesus vann af honum boltann og senti á Sterling sem skoraði auðveldlega.

Karim Benzem jafnaði metin með góðum skalla á 28. mínútu, staðan jöfn í hálfleik og allt gat gerst í seinni hálfleik.

Raphael Varane gerðist aftur sekur um hörmuleg mistök á 68. mínútu þegar hann ætlaði að skalla boltann til baka á Courtois í markinu en Gabriel Jesus komst þá inn í sendinguna og skoraði framhjá Courtois af stuttu færi.

Lokatölur í leiknum 2-1 fyrir Manchester City sem þýðir að City mætir Lyon í 8-liða úrslitum í Portúgal en Real er úr leik eftir 16-liða úrslit annað árið í röð.


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.