Erlent

Lög­regla beitti mót­mælendur í Beirút tára­gasi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Hér má sjá mótmælendur forða sér eftir að lögregla hafði kastað táragashylki í átt að þeim.
Hér má sjá mótmælendur forða sér eftir að lögregla hafði kastað táragashylki í átt að þeim. AP/Hassan Ammar

Til átaka kom á milli lögreglunnar í Beirút og mótmælenda í nótt en fólk hópaðist út á götur borgarinnar til að mótmæla landlægri spillingu og óstjórn í Líbanon. Lögreglan beitti táragasi gegn hópi fólks sem hafði safnast saman nærri þinghúsi landsins.

Reiði fólksins blossaði upp þegar hin gríðarlega sprenging varð á hafnarsvæðinu síðastliðinn þriðjudag þar sem að minnsta kosti 137 fórust og þúsundir slösuðust. Talið er að um 300 þúsund séu án heimilis eftir sprenginguna.

Margir saka stjórnvöld um sinnuleysi í málinu en ítrekað hafði verið bent á hættuna af því að geyma 2750 tonn af ammóníum-nítrati í vöruhúsi við höfnina. Þrátt fyrir það var ekkert að gert og því fór sem fór.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti heimsótti Beirút í gær og við það tilefni sagði hann ljóst að breytinga væri þörf í Líbanon. Eins kallaði hann eftir innri rannsókn á málinu.

Tveir embættismenn hafa sagt af sér í kjölfar sprengingarinnar. Þingmaðurinn Marwan Hamadeh sagði af sér á miðvikudag og Jordan Tracy Chamoun, sendiherra Líbanons í Jórdaníu sagði af sér í gær. Hann sagðist telja að tímabært væri að fólki í leiðtogastöðum yrði skipt út.

Samkvæmt ríkisfjölmiðli Líbanons hafa 16 verið hneppt í varðhald í tengslum við rannsókn á málinu.


Tengdar fréttir

Án umbóta muni íbúar Líbanon þjást áfram

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, segir að án umbóta muni íbúar Líbanon halda áfram að þjást. Landið gangi nú í gegnum pólitíska og efnahagslega krísu og þörf sé á skjótum viðbrögðum.

Hefja neyðarsöfnun vegna sprenginganna í Beirút

Rauði krossinn á Íslandi hefur hafið neyðarsöfnun vegna hamfarasprenginganna í Beirút. Á annað hundruð manns fórust í sprengingunum að minnsta kosti og þúsundir slösuðust.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×