Innlent

Innflutningur á efninu ammóníum nítrat í lágmarki hér á landi

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar

Innflutningur á efninu ammóníum nítrat er í lágmarki hér á landi að sögn slökkviliðsstjóra. Vel er fylgst með notkun og geymslu á efninu sem talið er að hafi valdið sprengingunni í Beirút.

Efnið ammóníum nítrat er þekkt í framleiðslu á sprengiefni en það er einnig notað í áburði. Það var flutt til landsins fyrir Áburðarverksmiðjuna í Gufunesi sem hætti störfum upp úr aldamótum en síðan þá hefur innflutningur á efninu verið í lágmarki.

„Samkvæmt okkar vitneskju þá er enginn stór lager af þessu. Þetta er kannski geymt í litlu magni en við teljum þá að það sé geymt af fagmönnum því menn þurfa að hafa leyfi til að kaupa þetta,“ sagði Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu.

Talið er að sprengingin í Beirút hafi orðið þegar eldur barst í ammóníum nítrat sem hafði verið geymt í um árabil, en þegar efnið er geymt lengi byrjar það að skilja sig.

„Það er töluvert hlýrra þarna úti en hér heima og þá er stundum talað um að efnið geti farið að skilja sig þannig að það fari úr þeim fasa sem það er og brotni niður og þá er aukin hætta. Efnið eitt og sér kallar á að það þarf að fara varlega. Menn þurfa að hafa leyfi og meðhöndla það rétt. Ef slys yrði hér þá myndi það verða mikið mikið minna en menn þurfa þó alltaf að fara varlega,“ sagði Jón Viðar.

Slökkviliðið hefur ekki fengið tilkynningar um úttekt á geymslum vegna gruns um varðveislu á miklu magni efnisins, en geymsla á meira en 500 kílóum af ammoníum nítrat áburði er háð samþykki slökkviliðsstjóra.

„Ef fólk verður vart við þetta þá bara láta heyra í sér. Bæði við, Vinnueftirlitið og Landhelgisgæslan erum á tánum gagnvart þessu,“ sagði Jón Viðar.


Tengdar fréttir

300 þúsund án heimilis eftir sprenginguna í Beirút

Allt að 300 þúsund manns misstu heimili sín í stærðarinnar sprengingu í Beirút í Líbanon í gær. Tjónið vegna sprengingarinnar var þar að auki minnst þrír milljarðar dala og allt að fimm milljarðar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.