Erlent

Neil Young höfðar mál gegn Trump

Samúel Karl Ólason skrifar
Neil Young.
Neil Young. AP/Amy Harris

Tónlistarmaðurinn víðfrægi Neil Young hefur höfðað mál gegn framboði Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, fyrir að nota tónlist hans án leyfis. Forsetinn hafi brotið höfundaréttarlög með því að spila lög Young á kosningafundum og öðrum viðburðum. Sérstaklega er um að ræða lögin Rockin‘ in the Free World og Devil‘s Sidewalk.

Enn fremur segist Young hafa kvartað yfir notkun framboðsins á tónlist hans en það hafi verið hunsað. Í bloggfærslu sem hann skrifaði í síðasta mánuði ítrekaði hann mótmæli við því að Trump notaði lög hans.

Í færslunni sagðist hann íhuga að höfða mál gegn forsetanum.

Young er frá Kanada en hann er einnig bandarískur ríkisborgari, eftir að hafa búið þar í mörg ár. Mál hans gegn Trump var tekið fyrir dóm í New York í gær. Hann fer fram á 150 þúsund dali í skaðabætur, samkvæmt frétt BBC.

Í máli lögmanna Young kom fram að tónlistarmaðurinn vildi ekki vanvirða rétt borgara til að styðja þá frambjóðendur sem þeir vilja. Hins vegar gæti hann ekki staðið hjá meðan tónlistin hans væri notuð við framboð sem byggi á sundrung, fávisku og hatri.

Young er alls ekki fyrsti tónlistarmaðurinn sem er reiður yfir notkun Trump á lögum sínum. Meðal annars hafa meðlimir Rolling Stones hótað forsetanum lögsókn og hópur tónlistarmanna skrifuðu nýverið undir opið bréf þar sem stjórnmálamenn voru hvattir til að fá leyfi til að nota lög í pólitískum tilgangi.

Meðal þeirra sem skrifuðu undir bréfið voru Mik Jagger, Lorde, Sia, meðlimir R.E.M., Pearl Jam, Linkin Park og Elton John.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×