Fótbolti

Nítján ára fótboltastelpa fær leyfi til þess að spila með karlaliði í Hollandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ellen Fokkema í viðtali við Omrop Fryslan sjónvarpstöðina í tilefni af tímamótunum.
Ellen Fokkema í viðtali við Omrop Fryslan sjónvarpstöðina í tilefni af tímamótunum. Skjámynd/Omrop Fryslan

Hin nítján ára gamla Ellen Fokkema mun spila með karlaliði VV Foarut í hollensku fjórðu deildinni á komandi tímabili og verður litið á þetta sem tilraunaverkefni.

Ellen Fokkema hefur spilað með sama fótboltaliði í fjórtán ár eða síðan að hún var fimm ára. Samkvæmt reglum í Hollandi þá þurfti hún að skipta um lið á nítján ára afmælisdaginn sinn.

Ástæðan er að eftir nítján ára aldur þá mega konur ekki spila í karlaliðum. Hollendingar leyfa reyndar blönduð lið mun lengur en flest önnur lönd. Það var samt sem áður komið að tímamótum í sumar og allt leit út fyrir að Ellen þyrfti að finna sér nýtt lið og það kvennalið.

Hollenska knattspyrnusambandið tók hins vegar vel í beiðni frá knattspyrnukonunni sjálfri og félagi hennar um að gera undantekningunni á reglunni og sjá hvernig það kemur út.

Það hafa verið blönduð fótboltalið í Holland frá árinu 1986 en konur hafa aðeins fengið að spila með körlunum þar til að þær verða nítján ára gamlar. Þær mega reyndar halda áfram að spila með b-liðum félaga en ekki með aðalliðunum.

Nú var eins og áður sagði komið að þessum tímamótum hjá Ellen Fokkema og hún sóttist eftir því að fá að halda áfram að spila með liðinu sínu. Ellen Fokkema hefur verið hjá VV Foarut síðan að hún var enn í leikskóla.

Ellen Fokkema var líka kát með að hafa fengið að taka þetta sögulega skref. „Það er frábært að ég megi spila áfram með mínu liði. Ég hef spilað með þessum strákum síðan að ég var fimm ára og var mjög leið yfir því að mega það ekki lengur á næsta tímabili,“ sagði Ellen Fokkema við NL Times.

„Hollenska knattspyrnusambandið hefur alltaf ráðlagt mér að spila með strákunum eins lengi og mögulegt væri og af hverju ætti þetta því ekki að vera í boði? Þetta er alvöru áskorun en það gerir þetta bara meira spennandi. Ég spurði félagið hvort eitthvað væri hægt að gera í þessu og við lögðum sameiginlega beiðni inn á borð sambandsins,“ sagði Ellen Fokkema

„Ég þori ekki að spá fyrir því hvernig þetta muni ganga en ég er mjög ánægð með að fá að taka þátt í þessari tilraun,“ sagði Ellen Fokkema.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.