Innlent

Endurtaka sig fyrir unga fólkið

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá upplýsingafundi dagsins.
Frá upplýsingafundi dagsins. vísir/arnar

Landlæknir segir almannavarnir hafa nokkrar áhyggjur af því að upplýsingar um sýkingavarnir berist ekki nógu vel til yngri aldurshópa. Það megi til að mynda sjá af aldri þeirra sem sýkst hafa að undanförnu. Landlæknir biðlar því til foreldra að ræða við börn sín um einstaklingsbundnar smitvarnir.

Alma Möller landlæknir varaði viðstadda við því að hún myndi endurtaka sig við upphaf ræðu sinnar á upplýsingafundi almannavarna í dag. Hún hóf mál sitt á því að útskýra hvernig kórónuveiran smitast á milli fólks, með dropasmiti, en Alma hefur einmitt drepið á þessu í ræðum sínum á síðustu upplýsingafundum.

Alma sagði þó mikilvægt að tæpa á þessu, meðal annars vegna þess að þau telji sig eiga erfitt með að ná til ungs fólks. Það sýni aldursdreifing þeirra sem veikst hafa af Covid-19 á síðustu dögum en þau eru flestir undir þrítugu.

Því biðlaði Alma til þeirra foreldra sem hlýddu á fund dagsins að ræða við börn sín um einstaklingsbundnar smitvarnir. Huga vel að handþvotti og sprittun, sem ætti að vera orðið flestum landsmönnum tamt eftir fimm mánaða reynslu.

Þar að auki sagðist Alma vona að landsmenn héldu áfram að miðla upplýsingum til þeirra Íslendinga sem hafa ekki góð tök á íslensku. Þær megi t.a.m. nálgast á vef Landlæknis. Fólk sem finnur til kvíða eða er áhyggjufullt í faraldrinum getur jafnframt fundið gagnlegar upplýsingar á vefnum covid.is. Þá aðstoð Rauði krossinn fólk í síma 1717 og í netspjalli sínu.

Alma sagði að sama skapi að óljóst væri á þessari stundu í hvað stefnir í faraldrinum. Hún telur þannig líklegt að heimsbyggðin verði að læra að lifa með veirunni til langframa, að alltaf verði einhver smit í gangi. Engu að síður hafi verið nauðsynlegt að grípa til aðgerða núna til að hafa betri stjórn á þróuninni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.