Innlent

Gul við­vörun á morgun

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Það mun blása hressilega á suðausturlandi á morgun.
Það mun blása hressilega á suðausturlandi á morgun. veðurstofa íslands

Þrátt fyrir hægviðri í dag ættu landsmenn að vera undir hvassviðri búnir. Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörn fyrir suðausturhornið sem tekur gildi strax á þriðja tímanum í nótt. Þar er búist við snörpum vindhviðum við fjöll, yfir 35 m/s, t.d. undir Öræfajökli og við Reynisfjall.

Þetta getur skapað hættuleg akstursskilyrði, sérílagi fyrir ökutæki með aftanívagna og eiga ökumenn á ferðalagi austur um verslunarmannahelgina því að vera vakandi.

Það verður hins vegar hægur vindur í dag, bjart með köflum norðaustanlands og stöku síðdegisskúrir, en skýjað og úrkomulítið í öðrum landshlutum. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast á Norðausturlandi.

Djúp lægð nálgast síðan úr suðri á morgun. Henni fylgir stíf austan- og norðaustanátt, en hvassviðri eða stormur suðaustanlands fram eftir degi sem fyrr segir. Gera má ráð fyrir rigningu um allt land og að það verði talsverð eða mikil úrkoma á Austfjörðum og Suðausturlandi.

Lægðin mun áfram láta á sér kræla á laugardag en þá verður hún skammt suður af landinu. Áfram má því búast við talsverðri rigningu suðaustantil og skúrum á vestanverðu landinu, en norðaustanlands ætti hanga þurrt.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag:

Austan og norðaustan 8-15 m/s, en 15-23 við SA-ströndina fram eftir degi. Rigning með köflum, en talsverð eða mikil rigning á SA-landi og Austfjörðum. Dregur úr vindi um kvöldið. Hiti 8 til 16 stig, hlýjast um landið V-vert.

Á laugardag:

Suðaustan 8-13 m/s A-til og norðaustan 8-13 á Vestfjörðum, annars hægari vindur. Þurrt að kalla NA-lands, talsverð rigning á SA-landi og dálítil væta í öðrum landshlutum. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast NA-lands.

Á sunnudag:

Breytileg átt og skúrir, en rigning A-lands. Hiti 9 til 16 stig.

Á mánudag (frídagur verslunarmanna):

Norðlæg eða breytileg átt og skúrir, hiti breytist lítið.

Á þriðjudag:

Norðaustanátt og dálítil væta N-lands, en líkur á síðdegisskúrum á S-verðu landinu. Hiti 8 til 17 stig, hlýjast SV-til.

Á miðvikudag:

Útlit fyrir svipað veður áfram.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.