Innlent

Búast má við veðurviðvörunum vegna lægðar um verslunarmannahelgina

Birgir Olgeirsson skrifar
Það gæti rignt hressilega á föstudag gangi spár eftir. 
Það gæti rignt hressilega á föstudag gangi spár eftir.  Vísir/Vilhelm

Búast má við að viðvaranir verði gefnar út vegna lægðar sem virðist ætla að heiðra landsmenn með nærveru sinni um verslunarmannahelgi. Leiðindaveðri er spáð á föstudag en skaplegra verður á norðanverðu landinu á laugardag.

Gangi spár eftir mun frekar djúp lægð koma upp að landinu suður úr hafi. Henni fylgir vaxandi austlæg átt og rigning aðfaranótt föstudags.

„Þá mun rigna um allt land á föstudaginn og verður svona svolítið strekkings vindur jafnvel svolítið hvass um tíma, en það kemur mjög milt loft með þessu, það er það eina jákvæða,“ segir Hrafn Guðmundsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Þessi lægð gæti reynst ferðalöngum erfið á föstudag.

„Þá sérlega erfið fyrir þá sem eru á húsbílum, með hjólhýsi eða jafnvel tjaldvagna. Sérstaklega á föstudag, þegar fólk er mest á ferðinni. Það þarf að fylgjast vel með því og verða væntanlega einhverjar viðvaranir gefnar út.“

Lægðinni fylgir þó nokkuð milt loft og gæti hiti náð vel nokkuð yfir fimmtán gráður. Veðrið gæti orðið skaplegt á norðanverðu og austanverðu landinu á laugardag, þó lægðin verði enn yfir landinu og með vætu á köflum. Veðrið á að lagast smám saman um helgina og lítur mánudagurinn nokkuð vel út. Tekið skal fram að um langtímaspá er að ræða og gæti ansi margt breyst hvað varðar veður um verslunarmannahelgina.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×