Innlent

Segir aðdáendur Eurovision vilja heimsækja Húsavík næstu árin

Kristján Már Unnarsson skrifar
Örlygur Hnefill Örlygsson hótelstjóri: Annar hver maður á Húsavík er orðinn vinur Pierce Brosnan.
Örlygur Hnefill Örlygsson hótelstjóri: Annar hver maður á Húsavík er orðinn vinur Pierce Brosnan. Stöð 2/Arnar Halldórsson.

Húsvíkingar nýta sér nú nýorðna frægð bæjarins vegna Eurovision-myndar Wills Ferrell. Búið er að opna Jaja Ding Dong bar, setja upp álfabyggð og Eurovision-safn er í bígerð. Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2.

Það var í október í fyrra sem fjölmennt kvikmyndatökulið nánast lagði undir sig Húsavík ásamt heimsfrægum kvikmyndastjörnum, Will Ferrell, Rachel McAdams og Pierce Brosnan, til að gera kvikmynd um keppendur Íslands í Eurovision.

Síðan myndin var frumsýnd í síðasta mánuði hafa Húsvíkingar fundið fyrir auknum áhuga á bænum. Örlygur Hnefill Örlygsson, hótelstjóri Cape-hotel, segir menn merkja þetta á aukinni netumferð á heimasíður og „líkar við“ viðbrögðum.

„Þannig að við sjáum að fólk er að leita að Húsavík mjög ört þessa dagana,“ segir Örlygur.

Og þá er um að gera að grípa tækifærið.

„Við sjáum eiginlega ekkert nema tækifæri í myndinni. Húsavík er svo skemmtilegur karakter í myndinni og fær að njóta sín svo vel,“ segir hótelstjórinn og segir myndina gefa sóknarfæri inn í Evrópu. Aðdáendur Eurovision, sem misstu af keppninni í ár, hafi fengið myndina í staðinn.

„Og eru núna að skoða Húsavík og vilja koma hér næsta sumar og næstu tvö þrjú ár, held ég.“

Álfabær eins og birtist í kvikmyndinni er risinn við hótel Örlygs.Mynd/Rafnar, Cape Hotel Húsavík.

Hann er búinn að opna Ja ja Ding Dong-bar eftir helsta laginu úr myndinni og búinn að setja upp litla álfabyggð við hótelið, eins og þá sem kemur við sögu í myndinni. Þá er hann kominn í viðræður við rétthafana EBU um að fá að setja upp Eurovision safn á Húsavík.

Margir Húsvíkingar léku aukahlutverk í myndinni og ekki spillti að hitta heimsfræga leikara.

„Þeir blönduðu svo mikið geði, sérstaklega Pierce Brosnan. Hann fór hérna um bæinn. Eiginlega annar hver maður er orðinn vinur Pierce Brosnan hér á Húsavík. Það er dálítið skemmtilegt.“

-Þetta var dálítið ævintýri fyrir Húsvikinga?

„Heldur betur.“

Meira í frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.