Erlent

Þriðju stærstu borg Víetnam lokað vegna nýrra smita

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglumaður kemur fyrir vegartálma í borginni Da Nang.
Lögreglumaður kemur fyrir vegartálma í borginni Da Nang. AP/Trinh Quoc Dung/VNA

Yfirvöld í Víetnam hafa komið á tveggja vikna útgöngubanni í Da Nang, þriðju stærstu borg landsins, eftir að fyrstu nýju kórónuveirusmitin í meira en þrjá mánuði greindust á sjúkrahúsi þar. Þúsundir ferðamanna flúðu borgina um helgina og almenningssamgöngum til og frá henni hefur verið aflýst.

Þeir fimmtán sem greindust smitaðir eru allir sjúklingar og heilbrigðisstarfsmenn á sjúkrahúsi í Da Nang. Engin ný innanlandssmit höfðu greinst frá því í apríl.

Útgöngubannið bar brátt að. Þúsundir ferðamanna, aðallega Víetnama, styttu sumarfríið sitt og létu sig hverfa frá borginni sem er vinsæll strandstaður um helgina. Yfirvöld áætla að nokkur þúsund manns hafi orðið innlyksa í borginni eftir að samgöngum var lokað. Þau hafa beðið hóteli í borginni um að hýsa fólkið, að sögn AP-fréttastofunnar.

„Við vildum ekki flýta okkur á flugvöllinn til að yfirgefa borgina vegna hættunnar á að vera í mannþröng þannig að við erum föst hér. En þetta er ekki slæmur staður til að vera strand á í tvær vikur,“ segir Lien Nguyen sem var með fjögurra manna fjölskyldu sinni í sumarfríi í Da Nang.

Aðeins 431 hefur greinst með Covid-19, sjúkdóminn sem nýtt afbrigði kórónuveiru veldur, í Víetnam til þessa og enginn hefur látið lífið. Yfirvöld sendu flugvél til Miðbaugs-Gíneu í gær til að sækja 129 Víetnama sem unnu þar og eru smitaðir af veirunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×