Fótbolti

Aron Elís í úrslitaleik um Evrópusæti - Ísaki skipt af velli í hálfleik

Sindri Sverrisson skrifar
Aron Elís Þrándarson og félagar í OB slógu Randers út.
Aron Elís Þrándarson og félagar í OB slógu Randers út. vísir/getty

Aron Elís Þrándarson er kominn í úrslitaleik um Evrópusæti í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta. Ísak Bergmann Jóhannesson lék aðeins fyrri hálfleik með toppliði Norrköping gegn botnliði Falkenberg í Svíþjóð.

Aron Elís var í liði OB í Danmörku þegar liðið komst áfram í úrslitaleik um sæti í forkeppni Evrópudeildarinnar. OB mun mæta AGF eða FC Köbenhavn í úrslitaleiknum en það veltur á því hvort liðanna endar ofar eftir lokaumferð efsta hluta dönsku úrvalsdeildarinnar síðar í dag.

Aron Elís lék allan leikinn í 1-1 jafntefli við Horsens á útivelli í dag en OB hafði unnið fyrri leik liðanna á heimavelli, 3-1, og vann því einvígið samtals 4-2.

Toppliðið missteig sig gegn botnliðinu í Svíþjóð

Ísak var í byrjunarliði Norrköping sem var óvænt 2-0 undir eftir fyrri hálfleik gegn botnliði Falkenberg í sænsku úrvalsdeildinni. Norrköping gerði þrefalda skiptingu í upphafi seinni hálfleiks og var Ísak einn þeirra sem þurftu að víkja.

Norrköping náði að jafna metin en Falkenberg komst í 3-2 á 89. mínútu. Enn var þó tími fyrir Norrköping til að jafna úr víti á síðustu stundu, 3-3. 

Norrköping er áfram á toppnum, með 24 stig, fjórum stigum á undan Elfsborg og fimm stigum á undan Malmö sem á leik til góða síðar í dag. Stigið dugði Falkenberg til að komast af botninum í bili, en liðið er stigi fyrir ofan Helsingborg og Kalmar sem eiga leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×