Fótbolti

Sjáðu þegar allt sauð upp úr eftir ljótt brot á Mbappé

Sindri Sverrisson skrifar
Kylian Mbappé var miður sín eftir að hafa meiðst í gær.
Kylian Mbappé var miður sín eftir að hafa meiðst í gær. VÍSIR/GETTY

Þjálfari PSG var hundóánægður út í mótherja liðsins þrátt fyrir sigurinn á St Etienne í úrslitaleik franska bikarsins í fótbolta í gær. Kylian Mbappé yfirgaf völlinn á hækjum eftir ljótt brot.

Eins og sjá má á myndbandinu hér að neðan sauð allt upp úr eftir tæplega hálftíma leik þegar fyrirliði St Etienne, Loic Perrin, renndi sér harkalega í Mbappé. Perrin var rekinn af velli en óvíst er með meiðsli Mbappé sem sást á hækjum með spelku um ökklann í seinni hálfleiknum.

Klippa: Læti eftir brot á Mbappé

PSG á fyrir höndum spennandi leikjatörn nú þegar liðið er byrjað að spila á ný eftir hlé vegna kórónuveirufaraldursins. Liðið mætir Lyon í úrslitum franska deildabikarsins og á svo leik við Atalanta í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í næsta mánuði. Nýtt tímabil í frönsku 1. deildinni hefst svo 22. ágúst. Mbappé hefur skorað 30 mörk í 33 leikjum á þessari leiktíð.

„Ég veit ekki hvað ég á að segja. Þetta er þriðji leikurinn í röð gegn St Etienne og þriðja rauða spjaldið, alltaf á fyrstu 30 mínútum leiksins,“ sagði Thomas Tuchel þjálfari PSG.

„Er þetta af því að þeir eru þreyttir eða hvað? Þetta kemur mér mjög á óvart í svona leik en þetta eru ekki góðar fréttir fyrir okkur, svo sannarlega ekki. Ég er mjög ánægður með sigurinn en nú verðum við að bíða rólegir eftir fréttum [af meiðslum Mbappé],“ sagði Tuchel.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×