Erlent

Þrjótar komust í einkaskilaboð í innbrotinu hjá Twitter

Kjartan Kjartansson skrifar
Jack Dorsey, forstjóri Twitter, segist miður sín yfir innbrotinu í síðustu viku.
Jack Dorsey, forstjóri Twitter, segist miður sín yfir innbrotinu í síðustu viku. Vísir/EPA

Forstjóri Twitter staðfesti í gær að tölvuþrjótar sem brutust inn í innri kerfi samfélagsmiðilsins og tóku yfir reikninga heimþekktra notenda í síðustu viku hafi í sumum tilfellum komist í einkaskilaboð þeirra. Baðst hann afsökunar á að fyrirtækið hefði dregist aftur úr í öryggismálum upp á síðkastið.

Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, og Elon Musk, stofnandi Tesla, voru á meðal þeirra þekktu einstaklinga sem misstu yfirráð yfir Twitter-reikningum sínum til tölvuþrjóta í síðustu viku. Þrjótarnir tístu skilaboðum til fylgjenda þeirra þar sem falast var eftir greiðslum í rafmyntinni bitcoin.

Twitter frysti reikningana sem þrjótarnir náðu á sitt vald tímabundið þannig að notendurnir gátu hvorki tíst né skipt um lykilorð á meðan. Í ljós kom að þrjótarnir höfðu komist yfir reikningana með því að brjótast inn í tölvukerfi Twitter. Fyrirtækið sætti gagnrýni fyrir að hafa brugðist seint við og eðli innbrotsins þótti benda til þess að öryggismálum þess væri ábótavant.

Jack Dorsey, forstjóri Twitter, staðfesti að þrjótarnir hefðu komist inn í einkaskilaboð 36 notenda þegar hann ræddi afkomu fyrirtækisins í gær. Á meðal þeirra var reikningur eins kjörins fulltrúa í Hollandi. Twitter telur ekki að skilaboð annarra núverandi eða fyrrverandi embættismanna hafi verið þrjótunum aðgengileg, að sögn Washington Post.

„Síðasta vika var virkilega erfið fyrir okkur öll hjá Twitter og við erum miður okkar yfir öryggisatvikinu sem hafði neikvæð áhrif á fólkið sem við þjónum og treystir okkur,“ sagði Dorsey sem viðurkenndi að fyrirtækið hefði ekki gert nóg til að halda í við öryggisvarnir, bæði tæknilegar og mannlegar.

Bandaríska alríkislögreglan FBI rannsakar innbrotið. Þrjótarnir komust inn í innri kerfi Twitter með því að svíkja auðkenni nokkurra starfsmanna út úr þeim.


Tengdar fréttir

Óttast um öryggismál Twitter eftir meiriháttar innbrot

Tölvuöryggissérfræðingar hafa áhyggjur af öryggismálum samfélagsmiðilsins Twitter eftir að tölvuþrjótar náðu stjórn á reikningum fjölda þekktra einstaklinga til þess að svíkja út greiðslur í rafmynt. Þeir furða sig meðal annars á hversu lengi það tók Twitter að stöðva þrjótana.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×