Fótbolti

Sara söng slagara með Whitney Houston í nýliðavígslunni hjá Lyon

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sara Björk skrifaði undir tveggja ára samning við Lyon í sumar. Hún kom til franska stórliðsins frá Þýskalandsmeisturum Wolfsburg.
Sara Björk skrifaði undir tveggja ára samning við Lyon í sumar. Hún kom til franska stórliðsins frá Þýskalandsmeisturum Wolfsburg. vísir/getty

Sara Björk Gunnarsdóttir hefur farið vel af stað með Lyon og skorað í fyrstu tveimur leikjum sínum með franska stórliðinu.

Þrátt fyrir þessa góðu byrjun slapp Sara ekki við að syngja í nýliðavígslunni hjá Lyon. Hún og hin ástralska Ellie Carpenter, sem er einnig ný hjá Lyon, tóku lagið saman.

Þær stöllur fluttu stórslagarann „I Wanna Dance with Somebody“ með Whitney Houston heitinni. Flutninginn má sjá hér fyrir neðan.

Sara og Carpenter komust ágætlega frá sínu en munu varla gefa fótboltann upp á bátinn fyrir frama á tónlistarsviðinu.

Sara skoraði eitt mark í 4-1 sigri Lyon á pólska liðinu Czarni Sosnowiec í æfingaleik í gær. Wendie Renard (2) og Melvine Malard (1) voru einnig á skotskónum fyrir frönsku meistarana.

Mark Söru kom á 14. mínútu. Hún skoraði þá með skalla eftir hornspyrnu ensku landsliðskonunnar Alex Greenwood. Markið má sjá hér fyrir neðan.

Lyon undirbýr sig nú fyrir lokahnykkinn í Meistaradeild Evrópu. Liðið mætir Bayern München í átta liða úrslitum keppninnar 22. ágúst.

Þrátt fyrir að hafa leikið með Wolfsburg á fyrri stigum Meistaradeildarinnar á þessu tímabili má hún spila með Lyon í keppninni. Lyon hefur orðið Evrópumeistari fjórum sinnum í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×