Erlent

Kínverjum skipað að loka ræðisskrifstofu í Houston

Kjartan Kjartansson skrifar
Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna kærði meinta kínverska njósnara fyrir tilraunir til að stela rannsóknum á bóluefni við Covid-19 og sakaði kínverska ríkið um að hafa aðstoðað þá. Í skipun um að kínversku ræðisskrifstofunni skyldi lokað var vísað til verndar á hugverkarétti Bandaríkjamanna.
Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna kærði meinta kínverska njósnara fyrir tilraunir til að stela rannsóknum á bóluefni við Covid-19 og sakaði kínverska ríkið um að hafa aðstoðað þá. Í skipun um að kínversku ræðisskrifstofunni skyldi lokað var vísað til verndar á hugverkarétti Bandaríkjamanna. AP/Andrew Harnik

Bandaríkjastjórn hefur skipað kínverskum stjórnvöldum að loka ræðisskrifstofu sinni í Houston í Texas. Kínverjar segja ákvörðunina „pólitíska ögrun“ en bandarísk stjórnvöld segja hana tekna til þess að verja bandarísk hugverk.

Aukin spenna hefur hlaupið í samskipti bandarískra og kínverskra stjórnvalda upp á síðkastið, ekki síst í tengslum við viðskipti ríkjanna og kórónuveiruheimsfaraldurinn. Ákvörðun kínverskra stjórnvalda um að koma á umdeildum öryggislögum í Hong Kong hefur ekki bætt úr skák.

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna sakaði Kína í gær um að hafa tölvuþrjóta á snærum sínum sem beina spjótum sínum að rannsóknastofum sem þróa bóluefni við Covid-19, sjúkdómnum sem nýtt afbrigði kórónuveiru veldur. Tveir kínverskir ríkisborgarar voru ákærðir fyrir njósnir og þjófnað.

Eldar loguðu í ruslafötum á skrifstofunni

Síðar í gær urðu sjónarvottar varir við eld í nokkrum ruslafötum í húsagarði kínversku ræðisskrifstofunnar í Houston. Þá sást til fólks henda skjölum á eldinn. Slökkvilið var kallað út en sagðist ekki hafa fengið aðgang að byggingunni, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Wang Wenbin,, talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins, lýsti ákvörðun Bandaríkjastjórnar sem „hneykslanlegri og tilhæfulausri“ og að hún væri í trássi við alþjóðalög. Ræðisskrifstofan í Houston er ein af fimm í Bandaríkjunum auk sendiráðsins í Washington-borg.

Hvatti Wang Bandaríkjamenn að hugsa ráð sitt, ella þyrfti Kína að svara með hörðum gagnaðgerðum. Hann útskýrði ekki hvað gekk á í húsagarði ræðisskrifstofunnar í gær.

Reuters-fréttastofan segir að stjórnvöld í Beijing íhugi nú að láta loka ræðisskrifstofu Bandaríkjanna í Wuhan til að gjalda líku líkt.

Í yfirlýsingu bandaríska utanríkisráðuneytisins sagði að það hefði skipað fyrir um lokun ræðisskrifstofunnar til að verja „bandarísk hugverk og bandaríska einkaupplýsingar“. Bandaríkjastjórn ætlaði sér ekki að líða brot Kína gegn fullveldi landsins. Vísaði ráðuneytið til Vínarsáttmálans um að ríkjum beri skylda til að skipta sér ekki af innanríkismálum annarra ríkja.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×