Erlent

Bóluefni Oxford-háskóla sagt gefa góða raun

Kjartan Kjartansson skrifar
Vísindamenn um allan heim keppast nú við að þróa bóluefni eða meðferð við Covid-19, sjúkdómnum sem nýtt afbrigði kórónuveiru veldur. Niðurstöður úr rannsóknum Oxford-háskóla eru sagðar vekja bjartsýni. Myndin er úr safni.
Vísindamenn um allan heim keppast nú við að þróa bóluefni eða meðferð við Covid-19, sjúkdómnum sem nýtt afbrigði kórónuveiru veldur. Niðurstöður úr rannsóknum Oxford-háskóla eru sagðar vekja bjartsýni. Myndin er úr safni. Vísir/EPA

Tilraunir á mönnum benda til þess að nýtt bóluefni sem Oxford-háskóli hefur unnið að gegn nýju afbrigði kórónuveirunnar sé öruggt og þjálfi ónæmiskerfi til þess að berjast gegn veirunni. Frekari tilraunir standa fyrir dyrum og of snemmt er sagt að meta virkni bóluefnisins.

ChAdOx1 nCoV-19-bóluefnið hefur verið í þróun undanfarna mánuði. Breska ríkisútvarpið BBC segir það gert úr erfðabreyttri veiru sem veldur kvefi í simpönsum. Breytingarnar láta veiruna líkjast kórónuveiru og er ónæmiskerfi manna sagt geta lært að glíma við hana.

Þegar bóluefnið var gefið 1.077 einstaklingum mynduðu þeir mótefni og hvíta blóðfrumur gegn veirunni. Þó að bóluefnið virðist öruggt er því sagt fylgja aukaverkanir. Um 70% þátttakenda fengu þannig hita eða höfuðverk.

Bresk stjórnvöld hafa þegar pantað hundrað milljón skammta af bóluefninu. Frekari rannsóknir þarf þó við áður en hægt verður að staðfesta að það gagnist gegn kórónuveiruheimsfaraldrinum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×