Innlent

Gestir á tjald­svæðinu þurftu að færa sig þegar Buná flæddi yfir bakka sína

Sylvía Hall skrifar
Mikið vatn flæddi úr ánni.
Mikið vatn flæddi úr ánni. Facebook

Starfsmenn tjaldstæðisins í Tungudal við Ísafjörð þurftu að aðstoða gesti að færa sig eftir að áin Buná flæddi yfir bakka sína í gærkvöldi. Allt gekk vel að sögn Gauts Ívars Halldórssonar, framkvæmdastjóra tjaldsvæðisins, og eru ökutækin sem voru á svæðinu komin réttu megin við ána.

„Það voru komnar holur í veginn og brúin leit út eins og árfarvegur að hluta til. Sumir eru smeykir að keyra yfir svoleiðis,“ segir Gautur í samtali við fréttastofu um aðstæðurnar í gærkvöldi. Mikið vatn var á svæðinu, loka þurfti tjaldsvæðinu og er búið að fjarlæga eina göngubrú.

Fimm hjólhýsi eru á svæðinu og þeir sem Gautur hafði talað við í morgun ætluðu sér að bíða af sér veðrið á svæðinu. Þar væri fínasta aðstaða og rafmagn og eldhús ef fólk þyrfti á því að halda.

„Það var enginn sem tjaldaði í nótt, enda vorum við ekkert að ráðleggja fólki að gera það,“ segir Gautur og bætir við að svolítill kuldi sé á svæðinu.

„Það er bara allt á floti í bænum. Þetta minnir bara á október.“

Skriðuföll á tveimur stöðum

Appelsínugul viðvörun er í gildi á Vestfjörðum og mikið vatnsveður var í gærkvöldi. Varar Vegagerðin sérstaklega við því að hætta sé á aurskriðum og grjóthruni.

Skriðuföll hafa orðið á tveimur stöðum á vegum og er vegurinn undir Spilli í Súgandafirði fyrir utan Suðureyri lokaður. Sömuleiðis er lokað upp á Bolafjall þar sem skriða féll í gær. Ekki virðast hafa orðið miklar skemmdir á vegum í úrhellinu, en skriðuföllin tvö voru tilkynnt til Vegagerðinnar.

Snjóað hefur í fjöllum í kringum Ísafjörð en svo virðist sem hann hafi ekki fest á vegum, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Guðmundur Björgvinsson, verkstjóri hjá Vegagerðinni segir að tilkynning um skriðufall á veginum undir Spilli í Súgandafirði hafi borist á níunda tímanum í morgun, en vegurinn liggur að bæjunum Stað og Bæ í Staðardal. 


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×