Innlent

Hætta á vatnavöxtum og skriðuföllum víða um landið norðanvert

Andri Eysteinsson skrifar
Úrkoman eins og hún var klukkan 01:00 aðfaranótt föstudagsins.
Úrkoman eins og hún var klukkan 01:00 aðfaranótt föstudagsins. Veðurstofan

Hætta er á vatnavöxtum og skriðuföllum á norðanverðum Vestfjörðum, Ströndum, Skaga og á Tröllaskaga.

Mikil úrkoma hefur orðið á síðustu sólarhring víðs vegar um landið en appelsínugul veðurviðvörun hefur verið gefin út á Vestfjörðum vegna mikillar rigningar og hættu á skriðuföllum.

Á vef Veðurstofunnar er greint frá því að mikil úrkoma á norðanverðum Vestfjörðum og á Ströndum valdi því að rennsli Hvalár í Ófeigsfirði á Ströndum mælist yfir 200 ára flóðþröskuldi og er búast við því að hún haldi áfram að hækka vegna áframhaldandi úrkomu. Hefur vatnshæð í ánni hækkað um tæpan meter á síðasta sólarhring samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni.

Þá má búast við auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum á Tröllaskaga þar sem einnig er hætta á skriðum og grjóthruni í bröttum hlíðum.

Sunnar á landinu er einnig von á mikilli úrkomu og við Mýrdalsjökul og sunnanverðan Vatnajökul má búast við leysingum með hækkandi vatnshæð og miklu rennsli í lækjum og ám.

Varað er við því að vöð gætu orðið varasöm og er ferðafólk hvatt til þess að sýna aðgát við óbrúaðar ár svæðisins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×