Fótbolti

„Erum að berjast eins og konur voru að berjast á at­vinnu­markaðnum fyrir 40 árum“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sif Atladóttir, landsliðskona.
Sif Atladóttir, landsliðskona. vísir/baldur

Sif Atladóttir, landsliðskona og leikmaður Kristianstads í Svíþjóð, líkir baráttu óléttra knattspyrnukvenna við baráttu kvenna í atvinnulífinu fyrir um fjörutíu árum.

Sif er hér á landi þessa daganna en hún er samningsbundinn Kristinastads í Svíþjóð. Hún ræddi við Svövu Kristínu Grétarsdóttur í Sportpakkanum í kvöld m.a. um að Stöð 2 Sport sé byrjað að sýna sænsku deildina.

„Fyrir mér er þessi deild miklu jafnari en aðrar deildir úti í heimi og það er það sem gerir hana svo áhugaverða að horfa á,“ sagði Sif.

„Mér finnst frábært að það sé farið að sýna deildina okkar hérna heima og sýna fyrirmyndirnar, sem hafa verið erlendis svo lengi. Nú fáum við loksins að sjá þær á skjánum.“

Sif er ólétt af sínu öðru barni og hún er komin inn í leikmannasamtökin í Svíþjóð þar sem hún er m.a. að berjast fyrir réttindum knattspyrnukvenna er þær bera barn undir belti.

„Við erum dálítið að berjast eins og konur voru að berjast á atvinnumarkaðnum fyrir 40 árum. Við finnum fyrir því að við erum réttindalausar þegar við komum með skilaboðin að maður sé ólétt eða stefnir á að verða ólétt. Við erum settar til hliðar.“

„Þetta er ákveðin barátta sem við þurfum að fara í gegnum. Ég fór inn í leikmannaráðið í Svíþjóð og ein spurningin sem við erum að vinna að núna er að koma óléttu-pólisíu inn, bæði fyrir öryggi leikmanna og líka fyrir félögin.“

„Félögin vilja líka gera sitt besta fyrir leikmenn svo þeir komi til baka eins tilbúnir og hægt er. Þetta á ekkert að verða dauðadómur fyrir ferilinn þó að þú viljir stækka fjölskylduna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×