Innlent

Gert að afgreiða matsáætlun vegna vindorkugarðs í Dalabyggð án tafa

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá Hróðnýjarstöðum í Dalasýslu.
Frá Hróðnýjarstöðum í Dalasýslu. Mynd/Stöð 2.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur lagt fyrir Skipulagsstofnun að afgreiða án frekari tafa matsáætlun vegna 80-130 megavatta vindorkugarðs í landi Hróðnýjarstaða í Dalabyggð. Greint var frá málinu í fréttum Stöðvar 2.

Úrskurðarnefndin féllst á þau sjónarmið Storm Orku, sem áformar vindmyllurnar, að óhæfilegur dráttur væri orðinn á afgreiðslu málsins. Hún hefur núna dregist í fimmtán mánuði þótt Skipulagsstofnun beri lögum samkvæmt að afgreiða málið innan fjögurra vikna frá því matstillaga liggur fyrir, sem í þessu tilviki var í apríl 2019.

Í kæru Storm Orku segir að svo virðist sem Skipulagsstofnun hafi í raun tekið sér vald til að stöðva verkefnið og komið í veg fyrir stjórnarskrárvarinn rétt eigenda félagsins til að stunda þá atvinnu í eigin landi sem þeir kjósi.

Úrskurðarnefndin telur þó að sá dráttur sem orðinn er á afgreiðslu málsins sé ekki ástæðulaus. Hins vegar verði ekki fram hjá því litið að komið sé langt fram yfir lögboðinn frest.

Skipulagsstofnun sagði helstu ástæðu tafanna þá að vindorkuver af því umfangi sem kærandi áformi eigi sér ekki hliðstæðu á Íslandi. Storm Orka benti hins vegar á að í desember 2016 hafi Skipulagsstofnun kynnt álit sitt á Búrfellslundi, 200 megavatta vindorkuveri, sem Landsvirkjun áformi, og það sé hliðstætt. Þótt það verkefni hafi á þeim tíma ekki átt sér hliðstæðu hafi það aðeins tekið Skipulagsstofnun um 9 vikur að afgreiða þá tillögu að matsáætlun.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Loka bæjar­miðlinum í mót­mæla­skyni

Staðarmiðlinum Búðardalur.is hefur verið lokað í mótmælaskyni vegna breytingu á aðalskipulagi sem heimilar að vindmyllur verði reistar á hluta jarða Sólheima og Hróðnýjarstaða í Laxárdal.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.