Erlent

Bretar láta undan þrýstingi Bandaríkjastjórnar varðandi 5G

Heimir Már Pétursson skrifar
Oliver Dowden menningarmálaráðherra Bretlands
Oliver Dowden menningarmálaráðherra Bretlands Getty/PA Images

Bresk stjórnvöld hafa látið undan þrýstingi frá Bandaríkjunum og ákveðið að banna aðkomu kínverska fyrirtækisins Huawei að uppbyggingu 5G fjarskiptakerfinu í Bretlandi.

Breski menningarmálaráðherrann greindi frá þessari ákvörðun í dag sem er stefnubreyting frá því Boris Johnson forsætisráðherrra reyndi í janúar að ná málamiðlun milli efnahags- og öryggishagsmuna með því að heimila Huawei takmarkaða aðkomu að uppbyggingu 5G samskipakerfisins.

Huawei mætti ekki tengjast kjarna kerfisiins og mætti í heild ekki koma að meira en 35 prósentum af samskiptakerfinu. Forsætisráðherrann er hins vegar undir þrýstingi frá hluta flokksmanna sinna sem gagnrýna framkomu kínverskra stjórnvalda í Hong Kong og meint tengsl Huawei við kínversk stjórnvöld.

Oliver Dowden menningarmálaráðherra Bretlands sagði á breska þinginu í dag að hömlur sem bandaríkjastjórn hefði sett á starfsemi Huawei gerði þróun tækni fyrirtækisins erfiða í Bretlandi.

„Svo það sé á hreinu þá mega símafyrirtæki frá lokum þessa árs ekki kaupa neinn 5G-búnað frá Huawei og þegar frumvarpið um öryggi fjarskipta hefur verið samþykkt verður það lögbrot að gera slíkt,“ sagði Dowden.

Bandaríkjastjórn sem á í viðskiptastríði við Kínverja hefur þrýst á Breta og fleiri þjóðir að útiloka Huawei sem þykir standa fremst í þróun 5G samskiptanetsinis í heiminum. Hafa Bandaríkjamenn meðal annars bannað Huawei að nota bandarískan hugbúnað og tækni við uppbygginigu kerfisins.

Þá hefur það áhrif í Bretlandi að bresk stjórnvöld reyna nú að ná hagstæðum viðskiptasamingum við Bandaríkjamenn eftir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

„Herra forseti, við höfum ekki tekið þessa ákvörðun af neinni léttúð. Og ég verð að vera reinskilinn um þessar ákvarðanir og afleiðingar þeirra fyrir öll kjördæmi landsins. Þetta mun seinka útbreiðslu 5G. Ákvarðanir okkar í janúar höfðu þegar seinkað útbreiðslunni um eitt ár og kostað allt að einum milljarði punda,“ sagði menningarmálaráðherrann á breska þinginu í dag.

Viðbótarkostnaðurinn við að banna Huawei algerlega verði hálfur milljarður punda þannig að heildarkostnaðurinn við andstöðuna við kínverska fyrirtækið verður um 267 milljarðar íslenskra króna.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.