Innlent

Far­þegar frá fjórum löndum í við­bót sleppa við skimun

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Vísir/Vilhelm

Frá og með 16. júlí þurfa farþegar frá Noregi, Danmörku, Finnlandi og Þýskalandi ekki að sæta sóttkví eða skimun við komuna til Íslands, að því gefnu að þeir hafi ekki dvalið í löndum sem skilgreind eru sem áhættusvæði. Fyrir þurftu farþegar frá Færeyjum og Grænlandi ekki heldur að sæta sóttkví eða skimun.

Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi landlæknis og almannavarna um faraldur kórónuveirunnar. Reglurnar koma til með að gilda jafnt um erlenda ferðamenn sem og Íslendinga eða aðra sem hér búa.

Hann segir að þrátt fyrir breyttar áherslur í landamæraskimun verði farþegar frá þessum löndum áfram beðnir um að fara varlega í samskiptum við aðra.

Þeir farþegar sem koma frá öðrum ríkjum en Noregi, Danmörku, Finnlandi, Þýskalandi, Grænlandi eða Færeyjum þurfa áfram að velja á milli skimunar við landamærin eða fjórtán daga sóttkvíar við komuna til landsins.

Þá munu Íslendingar eða aðrir sem búsettir eru hér, og ferðast hingað frá öðrum en áðurnefndum löndum, þurfa að fara í skimun á landamærum, svo heimkomusmitgát, sem er eins konar styttri útgáfa af sóttkví, og svo aðra sýnatöku fjórum til sex dögum eftir heimkomu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.