Fótbolti

Sjáðu mörkin sem færðu Real Madrid nær 34. Spánarmeistaratitlinum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Karim Benzema fagnar marki sínu gegn Granada. Hann hefur skorað fimm mörk í níu leikjum síðan keppni hófst á ný eftir kórónuveirufaraldurinn.
Karim Benzema fagnar marki sínu gegn Granada. Hann hefur skorað fimm mörk í níu leikjum síðan keppni hófst á ný eftir kórónuveirufaraldurinn. getty/Fermin Rodriguez

Real Madrid er einum sigri frá 34. Spánarmeistaratitlinum eftir að hafa lagt Granada að velli, 1-2, í gær.

Real Madrid er með fjögurra stiga forskot á Barcelona á toppi spænsku úrvalsdeildarinnar þegar tvær umferðir eru eftir.

Með sigri á Villarreal á Santiago Bernabéu á fimmtudaginn verður Real Madrid spænskur meistari. Engu breytir hvernig leikur Barcelona og Osasuna á Nývangi fer.

Ferland Mendy kom Real Madrid yfir gegn Granada í gær eftir tíu mínútna leik. Hann skoraði þá með skoti upp í þaknetið úr þröngu færi. Þetta var fyrsta mark Frakkans fyrir Real Madrid.

Sex mínútum síðar bætti landi hans, Karim Benzema, öðru marki við með skoti í fjærhornið. Hann er næstmarkahæstur í spænsku deildinni með nítján mörk. Lionel Messi er markahæstur með 22 mörk.

Darwin Machís minnkaði muninn í 1-2 fyrir Granada á 50. mínútu en nær komust heimamenn ekki. Þeir sigla lygnan sjó í 10. sæti deildarinnar.

Mörkin úr leik Granada og Real Madrid má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Real Madrid vann níunda leikinn í röð

Real Madrid hefur unnið alla níu deildarleiki sína eftir að keppni hófst á ný vegna kórónuveirufaraldursins. Markatalan í þessum níu leikjum er 17-3.

Real Madrid á einnig möguleika á að vinna Meistaradeild Evrópu en liðið mætir Manchester City í seinni leik liðanna í sextán liða úrslitunum 7. ágúst. City vann fyrri leikinn á Santiago Bernabéu, 1-2. Sigurvegarinn í rimmu Real Madrid og City mætir annað hvort Lyon eða Juventus í átta liða úrslitunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×