Fótbolti

Hólmbert Aron skoraði er Álasund var kjöldregið af  Bodø/Glimt

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hólmbert Aron skoraði fyrir botnlið Álasund í dag en það dugði ekki til er liðið tapaði 6-1 fyrir toppliði deildarinnar.
Hólmbert Aron skoraði fyrir botnlið Álasund í dag en það dugði ekki til er liðið tapaði 6-1 fyrir toppliði deildarinnar. Vísir/Getty

Alfons Sampsted lék allan leikinn er topplið Bodø/Glimt kjöldró Íslendingalið Álasunds í norsku úrvalsdeildinni í dag. Matthías Vilhjálmsson lék allan leikinn í mikilvægum sigri Vålerenga.

Alfons Sampsted og félagar í Bodø/Glimt jörðuðu Íslendingalið Álasund í norsku úrvals-deildinni í dag. Lokatölur 6-1 en alls tóku fjórir Íslendingar þátt í leiknum. Alfons lék allan tímann í hægri bakverði Bodo/Glimt. 

Hjá Álasund var Daníel Leó Grétarsson í miðjunni á þriggja manna vörn heimamanna. Davíð Kristján Ólafsson var í vinstri vængbakverði og Hólmbert Aron Friðjónsson var vinstra megin í þriggja manna framlínu. Hólmbert Aron skoraði mark Álasunds en hann jafnaði metin á 30. mínútu. 

Áður en fyrri hálfleik var lokið höfðu Bodø/Glimt skorað tvívegis til viðbótar og staðan því 3-1. Þeir bættu svo við þremur mörkum í síðari hálfleik og unnu þægilegan 6-1 sigur.

Alfons og félagar eru sem fyrr á toppi deildarinnar með fullt hús stiga að loknum sjö umferðum. Molde kemur þar á eftir með 19 stig. Álasund er hins vegar í neðsta sæti deildarinnar með aðeins þrjú stig.

Matthías Vilhjálmsson lék allan leikinn 1-0 sigri Vålerenga á Mjöndalen í dag. Eina mark leiksins kom á 13. mínútu en það gerði Fredrik Jensen.

Vålerenga var manni færri frá 35. mínútu þegar markvörður liðsins, Kristoffer Klaesson, fékk beint rautt spjald fyrir að taka boltann með hendi fyrir utan teig. Matthías og félagar héldu út og náðu í þrjú mikilvæg stig.

Liðið er í 3. sæti deildarinnar með 12 stig þegar sjö umferðum er lokið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.