Fótbolti

Flamengo tapað fyrir báðum Becker-markvörðunum í úrslitum á innan við ári

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Muriel var hetja Fluminense þegar liðið vann Flamengo í úrslitaleik Rio Cup í dag.
Muriel var hetja Fluminense þegar liðið vann Flamengo í úrslitaleik Rio Cup í dag. getty/Buda Mendes

Alisson er ekki eini frambærilegi markvörðurinn í Becker-fjölskyldunni. Eldri bróðir hans, Muriel, er einnig fínasti markvörður eins og hann sýndi í úrslitaleik efstu deildar í Ríó (Campeonato Carioca) í Brasilíu í dag.

Fluminense og Flamengo mættust þá á Maracana vellinum í Ríó. Staðan eftir venjulegan leiktíma var jöfn, 1-1, og því réðust úrslitin í vítaspyrnukeppni. Þar reyndist Muriel hetja Fluminense.

Hann varði tvær spyrnur Flamengo, frá Willian Arao og Rafinha, fyrrverandi leikmanni Bayern München. Þá nýtti Léo Pereira ekki sína spyrnu. Á meðan skoruðu Fluminense úr þremur af fimm spyrnum sínum. Allt það helsta úr leiknum má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Úrslitaleikur Fluminense og Flamengo

Í desember á síðasta ári tapaði Flamengo fyrir Alisson og félögum í Liverpool í úrslitaleik HM félagsliða, 1-0. 

Flamengo hefur því tapað fyrir báðum markvörðunum í Becker-fjölskyldunni á tæpum sjö mánuðum.

Alisson fagnar eftir sigur Liverpool á Flamengo í úrslitaleik HM félagsliða í fyrra.getty/Mike Hewitt

Muriel og Alisson hófu báðir ferilinn hjá Internacional og voru samherjar þar um tíma. Alisson fór þaðan til Roma og svo til Liverpool þar sem hann hefur verið afar farsæll. 

Brassinn hefur bæði orðið Englands- og Evrópumeistari með Liverpool. Þá vann hann Suður-Ameríkukeppnina með brasilíska landsliðinu í fyrra.

Muriel gekk í raðir Fluminense í fyrra frá Belenenses í Portúgal. Hann er fæddur 1987 og er sex árum eldri en Alisson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×