Leeds í afar vænlegri stöðu eftir stórsigur á Stoke | Sjáðu öll mörkin

Ísak Hallmundarson skrifar
Patrick Bamford fagnar marki.
Patrick Bamford fagnar marki. getty/George Wood

Leeds United stigu risaskref í átt að sæti í ensku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð með 5-0 sigri á Stoke City í dag. 

Mateusz Klich kom Leeds yfir með marki úr vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks og braut þar með ísinn fyrir það sem koma skildi. Strax í upphafi seinni hálfleiks, á 47. mínútu, tvöfaldaði Helder Costa forystuna eftir stoðsendingu frá Stuart Dallas. 

Fyrirliðinn Liam Cooper gerði síðan þriðja mark Leeds á 57. mínútu, stöngin inn eftir sendingu Pablo Hernandez. Hernandez var síðan sjálfur á ferðinni á 72. mínútu þegar hann skoraði með laglegu skoti fyrir utan teig og kom Leeds í 4-0. Patrick Bamford setti síðan kirsuberið á toppinn þegar hann skoraði fimmta mark Leeds í uppbótartíma, en boltinn hafði tvisvar viðkomu í stöngina áður en hann söng í netinu.

Með sigrinum fer Leeds upp í 81 stig, sem er sex stigum meira en Brentford sem situr í þriðja sæti, en annað sæti og ofar veitir þátttökurétt í ensku úrvalsdeildinni á næstu leiktíð. Aðeins fjórar umferðir eru eftir af þessu tímabili og því þarf Leeds að vinna tvo af síðustu fjórum til að fara upp.

Stoke er á meðan í bullandi fallhættu í 21. sæti, stigi fyrir ofan fallsæti.

Hér að neðan má sjá öll mörkin úr leiknum.

Klippa: Leeds 5-0 Stoke

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira