Fótbolti

Sjáðu rauðu spjöldin og sigur­mark Suarez er Börsungar felldu erki­fjendurna

Anton Ingi Leifsson skrifar
Það var mikill hiti er erkifjendurnir mættust á Camp Nou í gær.
Það var mikill hiti er erkifjendurnir mættust á Camp Nou í gær. vísir/getty

Það var hart barist er grannarnir í Barcelona og Espanyol áttust við í spænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gær en einungis fimm kíómetrar eru á milli heimavalla liðanna.

Bæði liðin eru frá Katalóníu en með tapi í gær gátu Espanyol fallið. Hitinn var þar af leiðandi ansi mikill í leiknum og í tvígang þurfti dómari leiksins að fara í rassvasann og draga upp rauða spjaldið.

Fyrsta rauða spjaldið fékk hinn ungi Ansu Fati á 50. mínútu en fjórum mínútum áður hafði hann komið inn á sem varamaður. Nokkuð groddaraleg tækling og eftir VAR-skoðun fékk hann rautt.

Einungis þremur mínútum síðar urðu liðin hins vegar jöfn á nýjan leik því þá fékk Pol Lozano að líta rauða spjaldið einnig fyrir glórulausa tæklingu á Gerard Pique.

Sigurmarkið kom svo á 56. mínútu er Luis Suarez skoraði eftir darraðadans. Nokkuð afdrifaríkar sex mínútum fyrir Espanyol sem leikur í B-deildinni á næstu leiktíð.

Börsungar eru stigi á eftir Real Madrid á toppnum en Madrídingar leika ekki fyrr en á föstudagskvöldið er liðið fær Deportivo í heimsókn.

Klippa: Barcelona - Espanyol 1-0



Fleiri fréttir

Sjá meira


×