Fótbolti

Leikmaður Lazio fékk rautt fyrir að bíta mótherja | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bitvargurinn Patric fær að líta rauða spjaldið.
Bitvargurinn Patric fær að líta rauða spjaldið. getty/Marco Rosi

Patric, varnarmaður Lazio, var rekinn af velli fyrir að bíta mótherja í uppbótartíma í leik liðsins gegn Lecce í ítölsku úrvalsdeildinni í gær.

Lazio tapaði leiknum, 2-1, og Patric tók reiði sína út á Giulio Donati, varnarmanni Lecce.

Þegar Felipe Caicedo, framherji Lazio, og Fabio Lucioni, varnarmaður Lecce, lentu í orðaskaki í uppbótartíma reyndi Donati að stilla til friðar. Patric kom þá aftan að honum og sökkti tönnunum í öxlina á honum. Atvikið má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Beit mótherja

Patric hafði ekkert upp úr krafsinu nema rautt spjald og væntanlega langt bann. Óhætt er að segja að þetta hafi ekki verið hans dagur en hann fékk á sig vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks fyrir hendi. Marco Mancuso, fyrirliði Lecce, skaut yfir úr vítinu.

Strax á 3. mínútu var mark dæmt af Mancuso eftir inngrip myndbandsdómgæslu. Tveimur mínútum síðar kom Caicedo Lazio yfir.

Khouma Babacar jafnaði á 30. mínútu og staðan var 1-1 í hálfleik. Í upphafi seinni hálfleiks skoraði Fabio Lucioni sigurmark Lecce með skalla eftir hornspyrnu. Með sigrinum komst liðið upp úr fallsæti.

Lazio hefur fatast flugið í toppbaráttunni að undanförnu og er sjö stigum á eftir toppliði Juventus. Lazio hefur tapað þremur af fimm leikjum sínum eftir að keppni hófst á ný eftir kórónuveirufaraldurinn.

Mörkin og helstu atvik úr leik Lecce og Lazio má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Lazio að missa flugið


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.