Erlent

Klipptu Trump út af mynd með Ep­­stein og Maxwell

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Myndin umrædda. Þegar Fox notaði hana í umfjöllun sinni var Donald Trump þó hvergi sjáanlegur.
Myndin umrædda. Þegar Fox notaði hana í umfjöllun sinni var Donald Trump þó hvergi sjáanlegur. Davidoff Studios/Getty

Bandaríska fréttastofan Fox News hefur beðist afsökunar á að hafa klippt Donald Trump Bandaríkjaforseta út af mynd sem notuð var í umfjöllun um barnaníðinginn Jeffrey Epstein og samstarfskonu hans og vinkonu, Ghislaine Maxwell, sem handtekin var í síðustu viku fyrir meinta þátttöku sína í brotum Epstein.

Á umræddri mynd mátti sjá Maxwell og Epstein ásamt Trump og eiginkonu hans, Melaniu. Myndin var notuð í tengslum við umfjöllun um lögmann fórnarlamba Epstein, en búið var að klippa forsetann út af myndinni, sem tekin var á hóteli hans, Mar-a-Lago í Flórída, í febrúar árið 2000.

Í yfirlýsingu frá Fox segir að um mistök, sem fréttastofan harmaði, væri að ræða.

Ekki liggur fyrir hvort Trump sá umfjöllunina, en oft hefur komið fram að hann er mikill aðdáandi Fox og fréttaflutningsins sem þar fer fram.

Ákvörðun Fox um að klippa forsetann út af myndinni er til marks um þá viðleitni stjórnmálamanna og annarra þekktra einstaklinga í Bandaríkjunum að sverja af sér öll tengsl við Maxwell og Epstein, sem eins og áður segir var dæmdur barnaníðingur.

Eric Trump, sonur forsetans, tísti í síðustu viku mynd úr brúðkaupi Chelsea Clinton, dóttur Bill og Hillary Clinton, þar sem Ghislaine Maxwell var meðal gesta. Búið var að gera rauðan hring utan um andlit hennar á myndinni. Með færslunni skrifaði Eric að fólkið væri „af sama sauðahúsi,“ og átti þar væntanlega við Clinton-fjölskylduna og Maxwell.

Hann var þó fljótur að draga í land þegar netverjar tóku til við að svara tísti hans með myndum af föður hans, Maxwell og Epstein saman í samkvæmum. Þá bentu einhverjir á að Maxwell hefði árið 1997 „sníkt far“ í einkaþotu forsetans á leið til Flórída, en Eric var sjálfur í þeirri flugferð.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.