Innlent

Segir ekki til fjármagn til að leggja betri vegi um allt land

Vésteinn Örn Pétursson skrifar

Sigþór Sigurðsson, framkvæmdastjóri malbikunarfyrirtækisins Hlaðbær Colas, segir að Ísland hafi ekki efni á því að leggja eins góða vegi og mögulegt er alls staðar um landið. Hann segir stærð landsins og fámenni þjóðarinnar valda því að ekki sé hægt að nota bestu efni sem til eru á alla þá 26 þúsund kílómetra sem vegakerfi Íslands spannar.

„Þetta er gífurlegt magn af vegum sem við eigum. Vegagerðin er með helminginn af þessu og sveitarfélög og einkaaðilar hinn helminginn. Við erum bara 365 þúsund hræður hérna, þetta er stórt land, og við erum með þessa vegi þar sem þú kemur út úr þéttbýlisstöðunum, austur fyrir Selfoss og norður fyrir Borgarnes, þá tekur við bara klæðing. Tjörunni eða bikinu er sprautað og steinunum dreift í,“ sagði Sigþór í viðtali við Bítið á Bylgjunni í morgun.

Hann segir að á þeim vegum sem hann nefnir sé hágæðaefni ekki notað til malbikunar.

„Enda höfum við bara ekki efni á því að leggja þá betri vegi um allt þetta svæði. Þetta er svo fátt fólk í stóru landi,“ segir Sigþór.

Hann segir um ágætis lausn að ræða þegar um er að ræða umferð upp á þúsund bíla á sólarhring.

„Við lendum víða í vandræðum af því að, sérstaklega yfir hásumarið þegar traffíkin er af túristum og núna af okkur Íslendingum, þá fer umferðin náttúrulega langt upp fyrir þessa tölu þó hún sé langt undir því yfir veturinn. Þá lendum við í vandræðum.“

Hann segir um að ræða þunn lög á veginum sem þola ekki mikla umferð.

Heyra má viðtalið við Sigþór í heild sinni í spilaranum efst í fréttinni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.