Inter klúðraði leik sem þeir voru með í höndunum | Andri kom inn á undir lokin

Ísak Hallmundarson skrifar
Conte og hans menn fóru illa að ráði sínu í dag.
Conte og hans menn fóru illa að ráði sínu í dag. getty/Mattia Ozbot

Inter tók á móti Bologna í ítölsku Serie A deildinni í dag. Inter þurfti á þremur stigum að halda en náðu að tapa leiknum eftir að hafa verið marki yfir og manni fleiri.

Þetta byrjaði vel fyrir Inter því á 22. mínútu kom Romelu Lukaku þeim yfir. Á 57. mínútu fékk Roberto Soriano leikmaður Bologna síðan að líta rauða spjaldið og bjuggust flestir við því að sigur Inter væri í höfn.

Annað kom á daginn. Inter fékk vítaspyrnu á 62. mínútu en Lautaro Martinez misnotaði spyrnuna og staðan því enn 1-0. 

Á 74. mínútu jafnaði Musa Juwara metin fyrir Bologna og þrem mínútum síðar fékk Alessandro Bastoni leikmaður Inter sitt annað gula spjald og þar með rautt. Aftur jafnt í liðum, tíu leikmenn á móti tíu.

Musa Barrow kom Bologna yfir á 80. mínútu og mögnuð endurkoma Bologna orðin staðreynd. Það dró síðan til tíðinda fyrir okkur Íslendinga þegar hinn 18 ára gamli Andri Fannar Baldursson kom inn á fyrir Bologna á 88. mínútu leiksins og fékk þar með að spila eitthvað í kringum átta mínútur á San Siro, en undirritaður er nokkuð viss um að enginn Íslendingur hafi spilað á San Siro jafn ungur að aldri.

Ótrúlegur leikur og 1-2 útisigur Bologna staðreynd.

Með þessum úrslitum er nánast útilokað að Inter vinni ítölsku deildina en þeir eru nú ellefu stigum á eftir Juventus á toppi deildarinnar. Bologna fer upp í níunda sæti með sigrinum, fimm stigum á eftir Milan í sjötta sætinu, sem veitir þátttökurétt í Evrópudeildinni.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira