Erlent

Hefja réttarhöld vegna morðsins á Khashoggi í Tyrklandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Mynd af Khashoggi fyrir utan ræðisskrifstofu Sáda í Istanbúl þar sem hann var myrtur.
Mynd af Khashoggi fyrir utan ræðisskrifstofu Sáda í Istanbúl þar sem hann var myrtur. Vísir/EPA

Tuttugu Sádar eru ákærðir í réttarhöldum vegna morðsins á Jamal Khashoggi sem hófst í Tyrklandi í dag. Tveir nánir aðstoðarmenn Mohammeds bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu, eru á meðal sakborninganna en enginn þeirra er viðstaddur réttarhöldin.

Khashoggi, sem var sádi-arabískur blaðamaður, var myrtur á ræðisskrifstofu Sáda í Istanbúl í október árið 2018. Hann hafði verið gagnrýninn á stjórnvöld í heimalandinu. Bandaríska leyniþjónustan telur að Salman krónprins hafi skipað fyrir um morðið á honum.

Tyrknesku saksóknararnir saka Ahmed al-Asiri, fyrrverandi varaforstjóra sádi-arabísku leyniþjónustunnar, og Saud al-Qahtani, fjölmiðlaráðgjafa konungsfjölskyldunnar um að hafa stýrt aðgerðinni gegn Khashoggi og gefið morðingjum hans skipanir. Hinir sakborningarnir átján eru sakaðir um að hafa kæft Khashoggi, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Lík Khashoggi er talið hafa verið bútað niður á skrifstofunni en líkamsleifar hans hafa aldrei fundist. Sádi-arabísk stjórnvöld neituðu því lengi vel að vita nokkuð um hvarf hans en neyddust á endanum til að viðurkenna að hann hefði látið lífið á ræðisskrifstofunni. Réttuðu þau yfir hópi manna sem þau fullyrða að hafi ekki haft blessun sína til þess að myrða Khashoggi.

Fimm manns voru dæmdir til dauða og þrír í fangelsi í réttarhöldunum í Sádi-Arabíu. Leynd ríkti yfir réttarhöldunum og sakborningarnir hafa ekki verið nafngreindir. Agnes Callamard, sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna sem hefur rannsakað dauða Khashoggi, hefur sagt hann fórnarlamb vísvitandi og yfirlagðrar aftöku sem sádi-arabíska ríkið beri ábyrgð á.

Callamard er á meðal þeirra sem fylgjast með réttarhöldunum í Tyrklandi. Hatice Cengiz, unnusta Khashoggi, situr einnig á áheyrendabekk. Khashoggi var á ræðisskrifstofunni í Istanbúl til að verða sér úti um gögn fyrir brúðkaup þeirra þegar hann var myrtur.


Tengdar fréttir

Sádar ákærðir í Tyrklandi vegna morðsins á Khashoggi

Tyrkneskir saksóknarar hafa ákært tuttugu Sáda vegna morðsins á sádi-arabíska blaðamanninum Jamal Khashoggi í október árið 2018. Enginn sakborningana er í Tyrklandi og yfirvöld í Sádi-Arabíu hafa réttað yfir ellefu þeirra vegna morðsins.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.