Erlent

Faraldurinn á hraðri og hættulegri vegferð í Texas

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Íbúar í Dallas í Texas bíða eftir því að komast í skimun fyrir kórónuveirunni.
Íbúar í Dallas í Texas bíða eftir því að komast í skimun fyrir kórónuveirunni. Vísir/getty

Yfir hálf milljón manna er nú látin úr Covid-19, sjúkdómnum sem kórónuveiran veldur. Enn eru flestir látnir í Bandaríkjunum, þar sem faraldurinn hefur víða komist á verulegt flug síðustu daga og vikur – til dæmis í Texas.

Staðfest smit á heimsvísu eru tíu milljónir en sem fyrr tróna Bandaríkin á toppi lista yfir bæði smitaða og látna. Alls eru nú yfir 125 þúsund látnir af völdum veirunnar í Bandaríkjunum, næstflestir eða rúmlega 57 þúsund í Brasilíu og Bretland kemur þar á eftir með yfir 43 þúsund andlát.

Síðustu daga og vikur hefur faraldurinn víða sótt í sig veðrið að nýju, til að mynda í Bandaríkjunum. Smituðum hefur fjölgað mjög í Texas upp á síðkastið og hefur útbreiðsla veirunnar tekið „hraðan og hættulegan snúning til verri vegar“, að sögn ríkisstjórans Greg Abbott.

Greg Abbott, ríkisstjóri Texas.Visir/getty

Fimm þúsund greinast nú með veiruna í Texas á degi hverjum miðað við um tvö þúsund áður. Þá eru nú skráðar um fimm þúsund sjúkrahúsinnlagnir vegna veirunnar á dag í ríkinu.

Mike Pence varaforseti Bandaríkjanna heitir því að ríkisstjórnin veiti Texas allan þann stuðning sem ríkið þarfnist í baráttunni við veiruna. Þá hvatti hann Texasbúa til að bera grímur fyrir vitunum úti á meðal almennings. „Við vitum að það heftir útbreiðslu kórónuveirunnar,“ sagði Pence.

Mörg ríki í suður- og vesturhluta Bandaríkjanna hafa farið illa út úr faraldrinum síðustu vikur eftir að létt var á veirutakmörkunum. Faraldurinn virðist hins vegar í rénun í New York-ríki og hefur dánartíðni þar ekki verið lægri frá því í marsmánuði. 

Í Hebei-héraði í Kína, skammt frá höfuðborginni Peking, hefur verið gripið til harðra aðgerða á ný eftir að nýjum smitum fjölgaði lítillega. 400 þúsund manns þurfa nú að sæta þar útgöngubanni.


Tengdar fréttir

Ekkert nýtt innan­lands­smit

Tveir greindust með kórónuveiruna síðasta sólarhringinn við landamæraskimun samkvæmt nýjustu tölum á Covid.is. Enginn greindist á veirufræðideild Landspítalans.

Smit í tíu milljónum á heimsvísu

Staðfest smit Covid-19 á heimsvísu hafa náð tíu milljónum. Nærri því hálf milljón manna hafa dáið vegna sjúkdómsins.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.