Innlent

Eldsvoði á horni Vesturgötu og Bræðraborgarstígs

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Mikill eldur logaði enn í húsinu nú skömmu eftir fjögur.
Mikill eldur logaði enn í húsinu nú skömmu eftir fjögur. Vísir/vilhelm

Íbúðarhús á horni Vesturgötu og Bræðraborgarstígs varð alelda nú á fjórða tímanum í dag. Fjórir voru fluttir á slysadeild. Þá voru að minnsta kosti þrír handteknir við húsið og leiddir upp í lögreglubíla. Enn lagði mikinn reyk frá húsinu nú skömmu fyrir klukkan fimm en enginn sjáanlegur eldur logaði.

Tilkynning barst um eldinn á fjórða tímanum og var allt tiltækt lið slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu sent á vettvang. Húsið varð fljótt alelda og steig mikill reykur upp frá því og yfir nærliggjandi hverfi. Eldtungur stigu jafnframt út um glugga og gera má ráð fyrir að húsið sé alveg ónýtt.

Allt tiltækt lið slökkvliðsins er á vettvangi.Vísir/vilhelm

Líkt og áður segir voru fjórir fluttir á slysadeild frá vettvangi brunans en ekki hafa fengist upplýsingar um líðan þeirra.

Samkvæmt frásögnum sjónarvotta á vettvangi hafa jafnframt einhverjir verið handteknir. Að minnsta kosti einn maður var settur í handjárn og leiddur brott af lögreglu nú á fjórða tímanum, samkvæmt myndum sem fréttastofu hafa borist. Í frétt RÚV segir að í það minnsta þrír hafi verið leiddir út úr húsinu í handjárnum um klukkan hálf fjögur.

Lögregla leiðir mann upp í lögreglubíl á vettvangi brunans.Hlynur Helgi

Sjónarvottur sem fréttastofa ræddi við lýsti því að kona hefði stokkið út um glugga á húsinu og virðist hafa lent í ruslagámi sem þar var.

Ljósmyndari Vísis á vettvangi nú skömmu fyrir fimm segir að enn leggi mikinn reyk frá húsinu en enginn eldur sé lengur sjáanlegur. Þá eru slökkviliðsmenn nú byrjaðir að rjúfa veggi og fara í gegnum rústirnar.

Lögregla segir í tilkynningu að nágrannar séu hvattir til að loka gluggum vegna reyks sem berst frá húsinu. Þá er fólk beðið um að halda sig fjarri meðan slökkvilið og lögregla eru að störfum.

Fréttin var síðast uppfærð klukkan 17:00.

Sprautað á eldglæringar.Vísir/vilhelm
Enn rauk úr glugga í risinu nú á fimmta tímanum.Vísir/vilhelm
Allt tiltækt lið slökkviliðsins er á vettvangi.Vísir/Frikki


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×