Erlent

Sendu bæklingablöðrur til Norður-Kóreu í nótt

Samúel Karl Ólason skrifar
Minnst ein blaðra rataði ekki alla leið yfir landamærin.
Minnst ein blaðra rataði ekki alla leið yfir landamærin. AP/Yang Ji Woong

Hópur fólks sem flúið hefur frá Norður-Kóreu sendi í nótt blöðrur hlaðnar áróðursbæklingum gegn einræðisstjórn Kim Jong Un yfir landamæri Norður og Suður-Kóreu. Samtökin, sem kallast Fighters for a Free North Korea, segja bæklingana vera um 500 þúsund talsins og að tuttugu stórar helíumblöðrur hafi verið notaðar. Auk bæklinga voru sendir tvö þúsund dalir í eins dala seðlum og þúsund minniskort.

Yfirvöld Norður-Kóreu höfðu krafist þess að komið yrði í veg fyrir sendinguna, í samræmi við samkomulag Kim og Moon Jae In, forseta Suður-Kóreu frá 2018. Gæsla á landamærunum hafði verið aukin en aðgerðasinnarnir sendu blöðrurnar yfir landamærin í skjóli nætur, samkvæmt Yonhap fréttaveitunni.

Norður-Kóreumenn segjast hafa prentað út tólf milljónir eintaka af eigin áróðursbæklingum og að þeir verði sendir til suðurs yfir landamærin.

Þá segir Reuters að hermenn hafi sést endurreisa stærðarinnar hátalarakerfi við landamæri ríkjanna. Það kerfi var tekið niður árið 2018 en hafði áður verið notað til að básúna kommúnistaáróðri yfir landamærin.

Líklegt er að athæfið muni auka spennuna á Kóreuskaganum enn frekar, en hún hefur aukist til muna undanfarin misseri.

Yfirlýsingar Norður-Kóreu gagnvart nágrönnum þeirra í suðri hafa orðið sífellt alvarlegri. Frá því að systir Kim, Kim Yo Jong, tók við stjórn samskipta ríkjanna hefur mikil harka færst í leikana. beinum samskiptum ríkjanna hefur verið slitið og yfirvöld Norður-Kóreu sprengdu samvinnustofnun ríkjanna á landamærunum í loft upp.


Tengdar fréttir

Norðurkóreskir hermenn sjást við landamærin

Svo virðist sem Norður-Kóreumenn hafi staðið við hótun sína um að senda hermenn að hlutlausa svæðinu á landamærunum við Suður-Kóreu. Frá þessu greindu suður-kóreskir miðlar í dag.

Enn syrtir í álinn á Kóreuskaga

Suður-Kóreustjórn varaði Norður-Kóreu í dag við frekari aðgerðum á landamærunum eftir að einræðisríkið sprengdi hús samvinnustofnunar ríkjanna í loft upp í morgun.

Heita því að byggja upp öflugri her

Ríkisstjórn Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, ætlar að byggja upp öflugri her, til að verjast hernaðarógnun Bandaríkjanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×