Innlent

Tveir farþeganna í einangrun en níu með „gömul smit“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Farþegar í flugvél Icelandair með grímur fyrir vitum.
Farþegar í flugvél Icelandair með grímur fyrir vitum. Vísir/Einar

Af þeim ellefu sem greinst hafa með kórónuveiruna við landamæraskimun hér á landi eru aðeins tveir með virk smit og í einangrun. Hinir níu eru með „gömul smit“, þ.e. höfðu þegar fengið veiruna og eru með virkt mótefni fyrir henni. Þeir þurfa því ekki að sæta einangrun. Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi almannavarna vegna veirunnar í dag.

Alls voru 760 sýni tekin úr farþegum sem komu til landsins í gær. Enginn greindist með veiruna en frá því að á mánudag hafa rúmlega sjö þúsund farþegar komið til Íslands, langflestir til Keflavíkur en 160 með Norrænu og 350 með einkaflugi.

Af þessum rúmlega sjö þúsund einstaklingur hefur sýni verið tekið úr 5500 einstaklingum og alls ellefu greinst með veiruna, að sögn Þórólfs.

„En hins vegar segir það ekki alla söguna því tveir hafa reynst vera með smit og eru þess vegna í einangrun. Níu eru hins vegar með gamalt smit og mótefni, og eru þess vegna ekki smitandi og því þarf engar sérstakar ráðstafanir fyrir þá.“

Rúmlega tuttugu einstaklingar hafa þurft að fara í sóttkví vegna þeirra sem greinst hafa á landamærunum. Sóttkvíarfólki mun hins vegar fækka núna vegna þess að verið er að taka í notkun nýjar skilgreiningar á áhættu í flugi eftir að flugfarþegum var gert að taka upp nýjar sóttvarnaráðstafanir.

„Við erum að endurskilgreina það í samræmi við alþjóðlegar leiðbeiningar og þá mun þörfin á sóttkví fyrir farþega í flugi, þó að greinist smit, verða miklu minna en áður. En ég vil minna á að ekkert covid-smit hafi verið staðfest í flugi til þessa, þó að upp hafi komið grunur um smit á alþjóðlega vísu.“

Covid-göngudeild Landspítala fylgist með sjö einstaklingum með virkt kórónuveirusmit hér á landi. Enginn þeirra er alvarlega veikur. Þrír af þessum sjö eru lögreglumenn á Suðurlandi sem smituðust sennilega af tveimur erlendum ferðamönnum sem einnig eru í einangrun, líkt og áður hefur komið fram. Þá hefur ekkert innlent smit greinst eftir 15. júní.


Tengdar fréttir

Vísa sjö Rúmenanna úr landi

Til stendur að vísa sjö af ellefu Rúmenum sem komu nýverið til landsins úr landi. Umræddir menn gerðust allir brotlegir við reglur um sóttkví.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×