Fótbolti

Eggert skoraði í mikilvægum sigri - Ísak með í sigri toppliðsins í Svíþjóð

Sindri Sverrisson skrifar
Eggert Gunnþór Jónsson með fyrirliðabandið í leik gegn Randers á dögunum.
Eggert Gunnþór Jónsson með fyrirliðabandið í leik gegn Randers á dögunum. VÍSIR/GETTY

Eggert Gunnþór Jónsson skoraði fyrra mark SönderjyskE í mikilvægum 2-1 útisigri á Silkeborg í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Liðin eru ásamt OB og Lyngby í riðli þar sem tvö efstu liðin komast í umspil um Evrópudeildarsæti en neðri tvö liðin fara í umspil um að forðast fall. OBV er með 36 stig en SönderjyskE og Lyngby 33 hvort og Silkeborg aðeins 20.

Hinn 17 ára gamli Ísak Bergmann Jóhannesson lék sinn þriðja leik í sænsku úrvalsdeildinni þegar hann kom inn á og spilaði síðasta hálftímann í 3-0 sigri Norrköping á Djurgården. Norrköping byrjar tímabilið vel og er eina liðið sem er með fullt hús stiga eftir þrjá leiki.

Arnór Ingvi Traustason var í liði Malmö sem gerði 2-2 jafntefli við Varberg. Honum var skipt af velli á 68. mínútu, þegar staðan var 1-1, en Malmö lék manni færra frá 37. mínútu eftir að Anders Christiansen fékk að líta rauða spjaldið. Malmö hefur unnið einn af fyrstu þremur leikjum sínum, og gert tvö jafntefli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×