Á Alþingi er nú lagt kapp við að ljúka þeim málum sem til stendur að klára fyrir sumarfrí. Það hefur aftur á móti gengið hægt að ljúka umræðu um samgönguáætlun en þingmenn Miðflokksins hafa verið sakaðir um málþóf vegna andstöðu sinnar við borgarlínu.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, verður gestur Elínar Margrétar Böðvarsdóttur í Víglínunni á Stöð 2 í dag. Þau ræða þessi stóru mál er varða samgöngur sem stefnan er að klára áður en Alþingi fer í sumarfrí, málefni Reykjavíkurflugvallar og ýmislegt fleira í þættinum.
Þá verður Svala Jóhannsdóttir, verkefnastýra Frú Ragnheiðar sem er skaðaminnkunarúrræði á vegum Rauða krossins, gestur í seinni hluta þáttarins. Í hópi þess fólks sem leitar til Frú Ragnheiðar eru einstaklingar sem búa við heimilisleysi, en erfiðlega hefur gengið að finna staðsetningu undir smáhýsi sem til stendur að reisa í borginni. Þessi mál og fleiri er varða þennan viðkvæma hóp verða tekin fyrir í þættinum.
Víglínan er í opinni dagskrá á Stöð 2 og Vísi klukkan 17:40.