Fótbolti

Aron lék allan leikinn í sigri OB á Eggerti og félögum

Ísak Hallmundarson skrifar
Aron og félagar unnu góðan sigur í dag.
Aron og félagar unnu góðan sigur í dag. getty/Lars Ronbog

Aron Elís Þrándarson spilaði allan leikinn þegar lið hans, OB, lagði SönderjyskE af velli í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Eggert Gunnþór Jónsson spilaði tæpan klukkutíma fyrir SönderjyskE á meðan liðsfélagi hans Ísak Óli Ólafsson var ónotaður varamaður í leiknum.

Lokatölur voru 2-0 fyrir OB. Jeppe Tverskov kom þeim yfir úr vítaspyrnu á 16. mínútu og annað markið skoraði Troels Klove á 32. mínútu. Fleiri urðu mörkin ekki og OB tryggði sér dýrmæt þrjú stig í fallbaráttunni.

Leikurinn var hluti af fallbaráttuumspilinu í dönsku deildinni og er spilað í tveimur fjögurra liða riðlum. Neðstu tvö lið hvers riðils þurfa að leika innbyrðis umspilsleiki til að skera úr um hvaða tvö lið fara niður um deild. OB er í efsta sæti riðilsins, sex stigum á undan SönderjyskE, sem þyrftu eins og staðan er í dag að leika umspilsleiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×