Erlent

Komu aftur með veiruna til Nýja-Sjá­lands

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands.
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands. Vísir/getty

Tvö tilfelli nýju kórónuveirunnar greindust í dag á Nýja-Sjálandi í fyrsta sinn í 24 daga. Veiran er þar með komin aftur til landsins, sem lýsti sig veirufrítt í síðustu viku.

Veiran greindist í tveimur konum sem komu til Nýja-Sjálands frá Bretlandi 7. júní. Þær höfðu fengið sérstakt leyfi til inngöngu í landið svo þær gætu verið viðstaddar jarðarför skyldmennis. Konurnar eru á fertugs- og fimmtugsaldri og voru fyrst um sinn í sóttkví á hóteli í borginni Auckland. Þær fengu svo leyfi til að fara til Wellington 13. júní.

Í frétt BBC um málið segir að önnur kvennanna hafi verið með „væg einkenni“ veirunnar en þau hafi þá verið rakin til annarra heilsufarsvandamála sem hún hefur glímt við. Konurnar gistu hjá skyldmenni í Wellington og voru prófaðar fyrir veirunni í gær. Jákvæð niðurstaða var svo staðfest í dag, þriðjudag.

Nýsjálensk yfirvöld lýstu því yfir í byrjun mánaðar að landið væri nú laust við veiruna – en báðu Nýsjálendinga þó að vera viðbúnir annarri bylgju faraldursins. Engin virk smit hafa verið í landinu síðan í maí en alls hafa nú 1506 greinst þar með veiruna. Veirutakmörkunum, bæði þeim er lúta að samfélagslegum þáttum og ferðalögum, hefur þannig hægt og bítandi verið aflétt síðustu vikur.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×