Erlent

Tilfinningaþrunginn dagur fyrir Svía

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Sænskir saksóknarar telja að Stig Engström, hinn svokallaði Skandia-maður, hafi orðið Olof Palme forsætisráðherra að bana þann 28. febrúar 1986.

Rannsóknin á morðinu á Palme er sú umfangsmesta í sögu Svíþjóðar. Engström var upphaflega vitni í málinu en á blaðamannafundi í morgun sagði Krister Petersson saksóknari að vitnisburður Engström og lýsingar hans á framvindunni hafi ekki passað við frásagnir allra annarra sem voru á vettvangi. Hann hafi haft aðgang að vopni sem gæti hafa verið notað.

Eitt er þó víst, Engström verður ekki ákærður enda stytti hann sér aldur árið 2000. „Þar sem Stig Engström er látinn get ég ekki sótt hann til saka né yfirheyrt. Því hef ég ákveðið að rannsókninni sé nú lokið, enda sá grunaði látinn,“ sagði Petersson.

Joakim Palme, sonur þeirra Olof og Lisbet forsætisráðherrahjóna, segist viss um að Engström sé sá seki.

„Mér þykir saksóknarar hafa nýtt sönnunargögnin af vettvangi eins vel og hægt er og það dugar til að sannfæra mig um það hver sá seki er,“ sagði Joakim Palme.

Stefan Löfven, núverandi forsætisráðherra, boðaði til blaðamannafundar og sagði þetta afar tilfinningaþrunginn dag.

 „Í réttarríki er ekki ríkisstjórnarinnar að fella dóm né byggja ákvarðanir á niðurstöðu saksóknara. En sem manneskja og sem leiðtogi sama flokks og Olof Palme get ég sagt að þetta er afar tilfinningaþrunginn dagur. Besta leiðin til að binda endi á þetta hefði auðvitað verið að fá sakfellingu.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×