Fótbolti

Er að fara gifta sig og fær frí í lokaumferðinni

Anton Ingi Leifsson skrifar
Simon Hedlund sést hér hoppa upp á félaga sína en Hjörtur Hermannsson er annar frá hægri.
Simon Hedlund sést hér hoppa upp á félaga sína en Hjörtur Hermannsson er annar frá hægri. vísir/getty

Hjörtur Hermannsson og samherjar hans í Bröndby verða án síns helsta framherja í dag þegar liðið mætir Horsens á útivelli í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Svíinn Simon Hedlund hefur skorað fjögur mörk og lagt upp önnur tíu fyrir Bröndby á leiktíðinni en hann verður ekki í leikmannahópi þeirra gulklæddu í dag því hann er að fara gifta sig.

Þetta var staðfest á heimasíðu Bröndby í gær en yfirmaður knattspyrnumála hjá Bröndby, Carsten V. Jensen, segir að Simon sé mikill fjölskyldumaður og því hefur félagið ekki ákveðið að standa í vegi hans. Því fær hann frí um helgina.

Simon segir sjálfur að planið hafi verið að halda stórt brúðkaup þegar leiktíðin væri ekki í gangi en vegna kórónuveirufaraldursins hafi allt farið úr skorðum. Hann fær því að halda smá teiti með sínum nánustu en þjálfarinn Niels Frederiksen segist í samtali við heimasíðu félagsins einnig styðja ákvörðunina.

Bröndby er í 4. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með 42 stig en liðið getur með hagstæðum úrslitum komist upp í 3. sætið í dag. Einnig getur liðið dottið niður í 6. sætið en umferðin í dag er sú síðasta í deildarkeppninni. Svo verður farið í úrslitakeppni sex efstu liðanna og átta neðstu liðin skiptast í tvo fallriðla. Bröndby er öruggt í úrslitakeppnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×