Erlent

Öll sérsveitin hætti til að styðja félaga sem var refsað fyrir ofbeldi

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglumenn ýta við manni á áttræðisaldri sem stóð á torgi sem þeir voru að rýma á fimmtudag. Maðurinn féll aftur fyrir sig og slasaðist á höfði. Lögreglan hélt því upphaflega fram að maðurinn hefði „hrasað“. Tveir lögregluþjónar voru settir í launalaust leyfi eftir að myndband birtist af atvikinu.
Lögreglumenn ýta við manni á áttræðisaldri sem stóð á torgi sem þeir voru að rýma á fimmtudag. Maðurinn féll aftur fyrir sig og slasaðist á höfði. Lögreglan hélt því upphaflega fram að maðurinn hefði „hrasað“. Tveir lögregluþjónar voru settir í launalaust leyfi eftir að myndband birtist af atvikinu. AP/Mike Desmond/WBFO

Á sjötta tug sérsveitarmanna lögreglunnar í Buffalo í Bandaríkjunum hætti í henni til að sýna samstöðu með tveimur félögum sínum sem voru settir í leyfi eftir að myndband birtist af þeim hrinda manni á áttræðisaldri í götuna. Maðurinn er sagður alvarlega slasaður en hann tók þátt í mótmælum gegn lögregluofbeldi.

Upphaflega hélt lögreglan í Buffalo því fram að maðurinn hefði „hrasað“ og dottið í „skærum“ á milli lögreglumanna og mótmælenda en mikil mótmæli hafa geisað víða í Bandaríkjunum vegna dráps á óvopnuðum blökkumanni í haldi lögreglunnar í Minneapolis undanfarna daga.

Myndband af atvikinu birtist á fimmtudag og sást maðurinn þar ræða við lögreglumenn áður en tveir þeirra ryðjast áfram og ýta manninum sem féll við það aftur fyrir sig í götuna. Aðrir sérsveitarmenn sjást ganga fram hjá manninum þar sem hann liggur jafnvel þó að einhver heyrist segja að það blæði úr eyranu á honum.

Tveir sérsveitarmenn voru settir í launalaust leyfi eftir að myndbandið breiddist úr eins og eldur í sinu á samfélagsmiðlum og Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York-ríkis, sagði að reka ætti lögreglumennina að sínu mati.

Allir 57 liðsmenn sérsveitarinnar hættu í henni í gær til að mótmæla brottvikningu félaga sinna en þó ekki í lögreglunni, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. John Evans, forseti sambands lögreglumanna í Buffalo, segir að lögreglumennirnir hafi aðeins fylgt skipunum um að rýma torg til að framfylgja útgöngubanni.

„Þar er ekki tilgreint að það eigi að tæma torgið af karlmönnum, yngri en fimmtugum eða fimmtán til fertugs. Þeir voru einfaldlega að vinna vinnuna sína. Ég veit ekki hversu mikil snerting þetta var. Hann rann að mínu mati. Hann féll aftur fyrir sig,“ sagði Evans við fjölmiðla þrátt fyrir að myndbandið virðist sýna skýrt að lögreglumennirnir hrintu manninum.

Maðurinn sem særðist heitir Martin Gugino, 75 ára gamall aðgerðarsinni frá Buffalo. Hann er sagður í stöðugu en alvarlegu ástandi á sjúkrahúsi.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.