Fótbolti

„Draumar KA um Evrópusæti eru fráleitir“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Hallgrímur Mar í baráttunni við Guðmann Þórisson en mikið mun mæða á Hallgrími í sumar.
Hallgrímur Mar í baráttunni við Guðmann Þórisson en mikið mun mæða á Hallgrími í sumar. vísir/bára

Þorkell Máni Pétursson, sparkspekingur, segir að draumar KA um að komast í Evrópusæti séu fráleitir en það muni hjálpa liðinu að Óli Stefán Flóventsson, þjálfari liðsins, sé á sínu öðru ári með liðið.

KA var á meðal þeirra liða sem var fjallað um í þriðja upphitunarþætti Pepsi Max-markanna í gær en liðið endaði í 5. sætinu á síðustu leiktíð. Eftir að hafa verið slakir framan af móti safnaði liðið mörgum stigum í síðari helmingnum og náði að klifra upp töfluna.

„Ég hélt að það hjálpi að Óli Stefán sé á sínu öðru ári. Hann þekkir leikmannahópinn betur og það gæti hjálpað þeim en draumar um Evrópusæti eru fráleitir,“ sagði Þorkell Máni. Sigurvin Ólafsson tók svo við boltanum.

„Það sem hjálpar þeim fyrst og fremst er endinn á síðustu leiktíð. Tíu leikir í röð og bara eitt tap. Þeir voru búnir að finna eitthvað sem virkaði og ef að þeim tekst að taka það með áfram, átta mánuðum síðar eða hvað sem það nú er.“

Í Lengjubikarnum steinlágu KA menn fyrir bikarmeisturum Víkings, 6-0, eftir að hafa verið 3-0 undir í hálfleik. Þorkell Máni segir að það geti þó bara hjálpað liðinu.

„Það getur oft verið fínt að fá svona skell, þá veit maður hvar maður er staddur. Ef að þú tapar 6-0 þá opinberast allt sem þú gerðir vitlaust í leiknum. Það getur verið meiri blekking að vinna 1-0 heldur en að tapa 6-0.“

Klippa: Máni segir drauma KA fráleita



Fleiri fréttir

Sjá meira


×