Fótbolti

Diego Costa þarf að borga stóra sekt en sleppur við fangelsisvist

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Costa spilar nú með Atletico Madrid eins og hann gerði þegar hann braut spænsku skattalögin árið 2014.
Diego Costa spilar nú með Atletico Madrid eins og hann gerði þegar hann braut spænsku skattalögin árið 2014. Getty/DeFodi

Spænski knattspyrnumaðurinn Diego Costa þarf að borga stóra sekt vegna skattarskuldar en hann hafði játað sekt sína og fékk að vita refsinguna í dag.

Hinn 31 árs gamli Diego Costa játaði að hafa svikið spænska skattinn um meira en milljón evra. Hann þarf að greiða meira en 543 þúsund evrur í sekt eða meira en 80 milljónir íslenskra króna.

Hann gaf ekki upp tekjur upp á 5,15 milljónir evra sem hann fékk í tengslum við félagsskipti hans til Chelsea árið 2014. Að auki gaf hann ekki upp eina milljón evra sem hann fékk í eigin vasa vegna ímyndarréttar.

Diego Costa fékk sex mánaða dóm en þarf samt ekki að fara í fangelsi eftir að hafa samþykkt að greiða aukalega 36.500 evrur í viðbót við upphaflegu sektina.

Talsmaður Atletico sagði við Reuters að Diego Costa hafði áður náð samkomulagi við saksóknara um sektina og að leikmaðurinn hafi þegar greitt sektina og það með vöxtum. Málið er því úr sögunni og Diego Costa getur einbeitt sér að því að klára leiktíðina með Atletico Madrid.

Diego Costa er þar með kominn í hóp með mörgum heimsþekktum knattspyrnumönnum sem hafa verið sektaðir vegna brota á skattalögum á Spáni. Í þeim hópi eru menn eins og Lionel Messi og Cristiano Ronaldo.

Breytingar á spænskum skattalögum frá 2010 hafa verið kallaðar Beckham-lögin en leikmennirnir hafa allir gerst brotlegir við þau. Áður fyrr sluppu knattspyrnumenn við að greiða skatt af ákveðnum hlutum tengdum ímynd sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×