Fótbolti

„Alltof vel sloppið að birta bara svarta mynd á Instagram“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin-Prince Boateng þegar hann var kynntur sem leikmaður Barcelona í janúar í fyrra. Hann var ekki lengi hjá spænska stórliðinu eða aðeins fram á vor.
Kevin-Prince Boateng þegar hann var kynntur sem leikmaður Barcelona í janúar í fyrra. Hann var ekki lengi hjá spænska stórliðinu eða aðeins fram á vor. EPA-EFE/ANDREU DALMAU

Knattspyrnumaðurinn Kevin-Prince Boateng finnst að margir leikmenn eigi að gera mun meira í að styðja réttindabaráttu svartra en að birta bara svarta mynd á Instagram.

Fólk út um allan heim er hneykslað yfir meðferðinni á blökkumanninum George Floyd en hann dó eftir að hvítur lögreglumaður lá með hné sitt ofan á hálsi hans í meira en átta mínútur.

Mikil mótmæli hafa verið út um öll Bandaríkjamenn og þau hafa náð til Evrópu og annarra heimshluta. Margir íþróttamenn hafa sýnt réttindabaráttunni sinn stuðning með orðum, athöfnum eða í viðtölum en stór hluti hefur hins vegar ekki tjáð sig að öðru leyti en að setja svarta mynd inn á Instagram reikninga sína.

Knattspyrnumanninum Kevin-Prince Boateng finnst það bara vera hvergi nærri nóg. Hann vill sjá meiri stuðning í orði og verki.

„Það er ekki nóg að allir séu bara að birta svarta mynd á þessum tímum. Það er of auðvelt. Fólk er bara of hrætt við að standa fyrir eitthvað eða segja eitthvað vegna styrktaraðila sinna eða fylgjenda,“ sagði Kevin-Prince Boateng harðorður.

„Af hverju eru þið ekki að tjá ykkur? Af hverju eru þið að segja eitthvað? Svört mynd er alltaf of auðveld leið,“ sagði Kevin-Prince Boateng.

Kevin-Prince Boateng var síðast á láni hjá tyrkneska félaginu Besiktas en hefur leikið áður með liðum eins og Tottenham, AC Milan, Barcelona og Borussia Dortmund.

Eins og sjá má hér fyrir neðan þá þakkaði Kevin-Prince Boateng fólki fyrir að gera eitthvað þó að það væri bara að setja inn svarta mynd á Twitter. Hann vill bara sjá miklu meira gert svo að hlutirnir breytist í heiminum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×