Innlent

Komst sjálfur út úr bústaðnum sem brann hratt til grunna

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Bústaðurinn varð alelda á skömmum tíma. Myndin er tekin rétt áður en slökkvilið kom á staðinn.
Bústaðurinn varð alelda á skömmum tíma. Myndin er tekin rétt áður en slökkvilið kom á staðinn. Guðlaugur Ævar Hilmarsson

Einn var inni í sumarbústað í Rjúpnastekki við Þingvallavatn þegar eldur kviknaði þar á áttunda tímanum í kvöld. Maðurinn kom sér út úr bústaðnum sem brann hratt til grunna. Hvellar sprengingar bárust frá húsinu þegar eldurinn barst í gaskúta en mildi þykir að ekki hafi kviknað í fleiri sumarhúsum.

„Bústaðurinn er alveg brunninn, hann brann mjög hratt upp af miklum krafti,“ segir Haukur Grönli, aðstoðarslökkvistjóri hjá brunavörnum Árnessýslu í samtali við Vísi. Tillkynnt var um eldinn um klukkan tuttugu mínútur yfir sjö og slökkvilið frá Selfossi og Laugarvatni var sent á vettvang.

Það skíðlogaði í tré við bústaðinn.Guðlaugur Ævar Hilmarsson

Ekki er vitað um eldsupptök að sögn Hauks en slökkvistarf beindist aðallega að því að hefta útbreiðslu eldsins, sem hafði læst sig í nærliggjandi gróður. Eldurinn barst að endingu ekki í neina sumarbústaði í kring sem Haukur segir mikla mildi. Maður sem var í bústaðnum þegar eldurinn kviknaði kom sér sjálfur út, líkt og áður segir, en fleiri voru ekki inni.

Nokkrar háværar sprengingar heyrðust skömmu eftir að eldurinn kviknaði, að sögn sjónarvotts sem hafði samband við fréttastofu nú í kvöld. Haukur kveðst hafa heyrt af sprengingunum og segir að þar hafi líklega verið um að ræða gaskúta, sem hafi sprungið þegar eldurinn komst í tæri við þá.

Bústaðurinn er rústir einar.Guðlaugur Ævar Hilmarsson

„Og við verðum líka að hafa í huga, og þess vegna er ágætt að taka fram, að biðja fólk að geyma gaskútana utandyra, í læstum geymslum,“ segir Haukur.

Lið frá tveimur stöðvum var eftir á vettvangi að slökkva í glæðum nú um klukkutíma eftir að útkallið barst. Hátt í tuttugu manns komu að aðgerðum í kvöld, auk sjúkraflutningamanna og lögreglu.

Fleiri myndir af brunanum og aðgerðum slökkviliðs má sjá hér að neðan.

Gaskútar virðast hafa sprungið þegar eldurinn komst í þá. Hér má sjá hluta úr gaskút nálægt sumarbústaðnum í kvöld.Guðlaugur Ævar Hilmarsson
Um tuttugu slökkviliðsmenn réðu niðurlögum eldsins.Brunavarnir árnessýslu
Slökkviliðsmenn búnir að slökkva eldinn.Brunavarnir árnessýslu
Sumarbústaðurinn brann fljótt til grunna.Brunavarnir árnessýslu
Eldurinn komst í tré og gróður við bústaðinn.Brunavarnir árnessýslu


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×